top of page

Hasta la victoria siempre...

Í nóvember árið 2002 fór ég mína jómfrúarferð til Kúbu. Við vorum á hóteli í Havana og fyrst þegar við gengum inn á herbergið var fitjað upp á trýnið yfir rakalyktinni sem tók á móti okkur. Eftir því sem leið á dvölina vandist blessuð stækjan. Hótelið var byggt árið 1920 og þegar sagan er jafn áþreifanleg og í Havana þá setja ártöl ýmislegt í samhengi. Hér kemur minningarbrot úr þeirri ferð...að frátöldum ferðadögunum til og frá eyjunni.

Dagur 1

Á fyrsta degi gengum við að Hotel Habana Libre, sem hét áður Habana Hilton. Hótelið opnaði í mars 1958 en tæpu ári síðar tóku Castro og byltingarher hans hótelið undir sig og nýttu það sem höfuðstöðvar. Í anddyrinu hanga...eða héngu þá a.m.k.... myndir frá byltingartímanum.

Frá Habana Libre er stuttur gangur að háskólasvæðinu. Eftir smá rölt buðust tveir heimamenn til þess að fylgja okkur um svæðið. Það lærðist fljótt í ferðinni að heimamenn vilja gjarnan aðstoða ferðamenn með leiðsögn...í laun fyrir nokkra dollara, mat eða drykk. Þessir drengir sýndu okkur læknadeildina, það var gaman að sjá hvernig háskólasvæðið er eins og lítið þorp inni í borginni. Í lok leiðsagnar fóru þeir með okkur í heimahús sem jafnframt var matsölustaður. Þarna sögðu þeir að hljómsveitin Buena Vista Social Club hafi spilað áður en hún varð fræg og fór að ferðast um heiminn. Húsráðandi sýndi okkur t.d. skömmtunarbók sem allir heimamenn áttu, þar sást t.d. að börn undir fimm ára fá mjólk annan hvern dag, en allir eldri en fimm fá enga mjólk. Ég man að þeir voru mjög hrifnir af sólgleraugunum okkar, enda sólgleraugu munaðarvara sem nánast bara ferðamenn sjást með úti á götu.

Áfram héldum við að skoða hótel. Að þessu sinni lá leiðin til Hotel Nacional de Cuba, sem er sannarlega glæsilegur gististaður. Hér hafa ekki ómerkari einstaklingar verið en Alexander Flemming, Winston Churchill, Frank Sinatra og Ava Gardner.

Til að kóróna daginn fórum við með leigubíl sem var yfirbyggð vespa á Plaza de la revolucion. Þar er stórt plan sem Castro gat haldið ægilangar ræður fyrir þegna sína. Svæðið er e.t.v. þekktast fyrir járnskúlptúrinn af Che Guevara á einni af byggingunni.

Dagur 2

Sökum tímamismunar vorum við komnar á stjá klukkan átta (sem er ekki alveg í stíl B-manneskju). Við byrjuðum á því að skoða Plaza de Armas og Calle Obispo. Þá kom til okkar ungt par sem bauð leiðsögn um gamla bæinn í skiptum fyrir mojito. Díll sem gat ekki klikkað og röltum við því með þeim að El Capitolio, sem er eftirlíking af þinghúsinu í Washington. Við skoðuðum Óperuna, Hotel Inglaterra, þau hjálpuðu okkur að kaupa símakort til að geta haft samband heim, röltu í gegnum hverfi þar sem fáir ferðamenn voru á sveimi. Þar kíktum við á matarmarkað og enduðum á litlum bar við Kínahverfið. Um leið og við skáluðum í mojito grófum við upp úr töskunni okkar litabók og liti sem við gáfum þeim fyrir barnið sitt, sem þau sögðust eiga. Kvöddum parið og héldum áfram að spássera um strætin án þeirra.

Snjallt ráð fyrir þá sem ferðast til Kúbu...taka með sér skriffæri, liti, stílabækur, spennur, sápur, tannbursta, tannkrem og bara ýmislegt sem við lítum á sem hversdagshluti en eru (eða voru a.m.k. 2002) munaðarvörur fyrir heimamenn.

Það er satt sem sagt er að í gamla bænum ómaði dillandi salsatónlist víða og ósjaldan fólk sem safnaðist saman og dansaði við tónlistina úti á götu. Við fórum inn í tvö söfn þennan dag. Fyrst á byltingarsafnið og síðan á tónlistarsafn. Mér fannst báturinn Granma áhugaverðastur á byltingarsafninu. Castro og félagar sigldu á Granma frá Mexikó til Kúbu í upphaf byltingarinnar. Eins var gaman að sjá póstbíllinn, sem geymdi herliðið sem réðst inn til Batista og ýmsan fatnað sem t.d. Fidel og Che Guevara klæddust. Síðan verður nú að taka það fram að húsið sem geymir safnið er stórglæsilegt.

Um kvöldið fórum við á salsastaðinn Casa de la Musica. Þar sátum við þreyttar eftir langan dag í bænum og tímamismunurinn hafði enn áhrif. Þegar hljómsveitin steig á svið og gólfið fylltist af atvinnudönsurum sátum við og klöppuðum fyrir "atriðinu"...þar til við áttuðum okkur á að þetta voru bara heimamenn. Svona líka asskoti taktvissir og með 48 hreyfingar í mjöðmum. Klukkan tvö tókum við leigubíl upp á hótel þar sem okkar norrænu, eins-hreyfinga mjaðmir þáðu góðan svefn.

Dagur 3

Nú var kominn tími til að skoða nærsveitir Havana. Í nokkuð nýlegum fararskjóta og með sposkan leigubílstjóra var lagt af stað. Fyrst stoppuðum við hjá götusala sem seldi kókoshnetur og sykureyrslímonaði. Því næst var keyrt í Viñales dalinn sem er fallegt náttúruverndarsvæði. Þar er t.d. að finna listaverkið prehistoria málað á klettavegg. Hádegismaturinn þennan dag samanstóð af svínakjöti með tóbaksrótum, hrísgrjónum og nýrnabaunum (sem heimamenn kalla moros y cristianos...eða márar og kristnir).

Eftir mat héldum við í dropasteinshellana Cuevas de Indianas og skoðuðum þá fótgangandi sem og á bát. Túrinn endaði svo á bóndabæ þar sem húsfreyjan sýndi okkur heimilið sitt, garðinn og tóbaksplöntu-þurrkhúsið. Inni í húsinu var eldhús án flókinna heimilistækja, fótknúin saumavél og úti í garði var vatnsdæla og fullt af dýrum. Hænur, hundar og gríslingar gengu inn og út um húsið líkt og börnin sem voru við leik. Úti sat svo afinn í ruggustól með sólhatt og vindil...annaðhvort gjörsamlega áhugalaus um aðkomufólkið eða lék hlutverk sitt mjög vel sem hinn dæmigerði, afslappaði Kúbverji.

Um kvöldið fórum við á paladar að borða, það eru veitingastaðir í heimahúsum í Havana. Paladarinn sem við fórum á var ekki merktur að utan, heldur áttum við að telja hús frá bakaríi einu og fara upp tröppurnar þar sem gamall maður situr á neðsta þrepinu! Áhugavert starf það...að vera mannlegt leyniskilti fyrir paladar. Staðurinn var skemmtilega innréttaður og eftir þessa jómfrúarferð til Kúbu hef ég heimsótt eyjuna nokkrum sinnum og alltaf farið á nýjan og nýjan paladar - klárlega eitthvað sem fólk á að hafa í huga að gera. Við fengum matseðil hjá heimasætunni, hún gaf okkur dágóðan tíma til að stúdera seðilinn, kom svo aftur með blokk til að taka niður pantanir og tilkynnti að í dag væri til kjúklingurinn. Sem sagt - matseðillinn var í raun óþarfi...

Södd, sæl og svaðalega þreytt skreið ég upp í rúm, útbitnin af svöngum sveitamosquító sem væntanlega hafa líka lagst til hvílu, saddar...og já...sprungnar!

Dagur 4

Sunnudagur til sælu. Við sömdum við leigubílstjórann frá gærdeginum að koma aftur í dag. Bíllinn mætti á réttum tíma, Jorge bílstjóri var mættur...bara ekki sami Jorge og keyrði í gær. Þessi var þó ekkert slor...mætti með blómvönd og þær nauðsynlegu upplýsingar að hann væri nýgiftur en barnlaus. Það kom upp upp úr krafsinu að þessi var töluvert skemmtilegri en kollegi sinn, sagði okkur meira frá og tók hlutverki sínu sem leiðsögumaður alvarlega.

Fyrst lá leiðin að heimili Ernest Hemingway, sem nú er safn. Við fengum leyfi til að príla upp í turninn sem þriðja frúin, Mary, lét byggja við húsið. Þar sat karlinn með mojito í annarri og penna í hinni...eða svo ímynda ég mér. Í garðinum er að finna sundlaug, snekkju og hundagrafreit....við sundlaugarbakkann. Eftir fráfall Hemingway gaf Mary ríkinu húsið og alla innanstokksmuni, að frátöldum handritum og málverkum. Eitthvað hefur hún ekki kunnað vel við allar nautaatsmyndirnar, því þær fylgdu húsinu. Eitt fannst mér áhugaverðara en annað, inni í borðstofu var lagt á borð fyrir þrjá. Mary hafði víst þann háttinn á að hún lagði alltaf á borð fyrir einn auka, svona til öryggis ef gest bæri að garði rétt fyrir matartíma þá væri hann augljóslega velkominn í mat.

Á leiðinni heim stakk bílstjórinn upp á því að hann keyrði okkur á strönd, fannst við eitthvað svo agalega fölar. Það fannst okkur þjóðráð, skutluðumst á hótelið í bikiní og þaðan niður á Santa María ströndina. Þar sóluðum við okkur innan um heimamenn og þóttum hlægilega hvítar, enda litum við út eins og langlegusjúklingar í samanburði við þá. Ströndin var dásamleg. Hvítur, fíngerður sandur, sjórinn grænblár og tær. Enginn þari eða gróður að flækjast á milli tána, engin grá slímug síli að smakka á manni, allt tært og lokkandi. Jorge sótti okkur svo seinni partinn og keyrði okkur upp á hótel.

Um kvöldið borðuðum við á El Aljibe kjúklingastað og fórum á Dos Gardenias í framhaldi, sem er lítill skemmtistaður þar sem bóleró söngvarar syngja tregafulla latínusöngva.

Dagur 5

Dagurinn byrjaði á San Fransisco torginu, þaðan gengum við yfir að Hotel Ambos Mundos og skoðuðum íbúð Hemingway á 5. hæðinni. Þar skrifaði hann víst stóran hluta bókarinnar Hverjum klukkan glymur. Þaðan lá leið okkar í tóbaksverksmiðjuna í gamla bænum. Þar fengum við leiðsögn um verksmiðjuna, lærðum hvernig vindlarnir eru gerðir úr 4 tegundum af tóbakslaufi og að æðarnar eru nýttar í framleiðslu ilmvatna. Þetta er 600 manna vinnustaður og margir ólæsir, því er haldin lestrarstund á hverjum degi þar sem lesari fer upp á svið og les upp úr dagblaðinu og bókum fyrir verkamennina.

Við gengum í gegnum Kínahverfið og röltum um gamla bæinn. Bílstjórinn Jorge sótti okkur síðan og keyrði okkur upp að borgarmúrnum og vitanum. Þaðan er útsýnið yfir Havana stórkostlegt og fallbyssurnar mikilfenglegar. Ein þeirra er í daglegri notkun. Klukkan níu að kvöldi er skotið einu skoti til að halda í gamla

þegar fallbyssuskotið minnti íbúa Havana á að það væri verið að hífa upp brúna. Það var ekki gott mál að lenda í því að lokast utan borgarmúranna.

Í framhaldi fór Jorge með okkur á uppáhalds barinn sinn, þar sötruðum við daiquiri og hlustuðum á hann segja okkur frá því hvernig var að alast upp á Kúbu. Hann og kona hans hafa það gott - eins og hann sagði sjálfur þá skorti þau ekkert nema frelsi til að ferðast. Við ákváðum að bjóða honum og konu hans út að borða um kvöldið. Hann sótti okkur á svartri Lödu (fínni bíllinn var bara vinnubíll) og við fórum á veitingastað í Miramar hverfinu. Afar glæsilegur paladar. Þau hjónin voru mjög skemmtileg og fróðlegt að tala við þau og læra um land og þjóð af þeim.

Dagur 6

Áður en rútan sótti okkur til að ferja okkur út á flugvöll kíktum við í skólann á móti hótelinu. Við vorum með stílabækur, ritföng og fleira skólatengt með okkur sem við gáfum skólastjóranum. Nemendafjöldinn taldi rúmlega 500 nemendur, allir nemendur voru í skólabúning og skólastofurnar voru einfaldar og algjörlega tækjalausar. Þessi dagur var stuttur því rútan kom og flugið heim tók við.

Í hjarta mínu, Kúba.

Kúba er dásamleg eyja. Heimamenn eru einstakir og náttúran falleg. Ég var svo heppin að geta heimsótt eyjuna nokkrum sinnum eftir þessa jómfrúarferð. Þá sá ég meira af landinu, fór t.d. á ferðamannastaðinn Varadero sem minnir ekkert á Havana.

Þrátt fyrir að Varadero hafi þann stimpil á sér að vera ekki "alvöru Kúba" þá er margt sjarmerandi við strandsvæðið.

Þar fékk ég t.d. að kíkja ofan í húdd bíls og sá hvernig vélin var litríkt samansafn af gosdósum sem nýttar voru sem bætur. Í Parque Josone var bar sem blandaði verðlaunaða pina colada drykki. Heimamenn í Varadero gera margt fyrir dollarann, t.d. selja þeir rósir úr garðinum sínum fyrir Íslendinga sem eiga afmæli og einhver að heiman vill að þeir fái blóm í tilefni dagsins.

Á Varadero fór ég á sjókött og skoðaði smákrókódíla og fór svo á veitingastað með comida exotica og smakkaði á smákrókódíl, snákum og strútum. Ég fór í jeppasafarí sem kom við á sykurreyrsakri og við fengum að reyna á okkur með sveðjurnar, flestum fannst það meira púl en að japla á sykurreyrnum.

Til að njóta Kúbu er ekki nóg að opna augun og eyrun. Til að njóta alls þess sem eyjan hefur upp á að bjóða er nauðsynlegt að opna hjartað.

RECENT POSTS:
SEARCH BY TAGS:
No tags yet.
bottom of page