top of page

Hafið bláa hafið


Carnival Vista

Að glíma við mýturnar

Fyrir nokkrum árum...eiginlega hægt að telja það í mánuðum...var ég með ógurlega fordóma fyrir skemmtiferðasiglingum. Kannski ekki fordóma, meira svona vanþekking og að ég taldi þennan ferðamáta ekki eiga við mig á nokkurn hátt. Ekki vegna þess að ég hafði horft of oft á Titanic, heldur sá ég fyrir mér fljótandi elliheimili þar sem farþegar spiluðu bingó öll kvöld á milli þess sem þeir reyndu á sig í boccia með sérrí í annarri. Taldi mig ekki eiga neitt erindi á svona skip. Já, álit sem var löðrandi í fordómum og ósönnuðum mýtum.

Síðan fékk ég símtal árið 2017 - og var beðin um að fara sem fararstjóri í siglingu um Karíbahaf. Fljúga til Miami og sigla þaðan til eyja í Karíbahafi og vera farþegum innan handar. Ég ákvað að segja já og hef ekki séð eftir því...þar sem augu mín opnuðust í þessari ferð. Núna er ég búin að fara í tvær ferðir sem fararstjóri og bíð spennt eftir þeirri siglingu sem ég fer í sem farþegi. Því auðvitað upplifir maður ferðir á annan hátt þegar þær eru frí en ekki vinna :)

Sigling um Karíbahafið

Fyrri siglingin var farin í október 2017 frá Miami. Við gistum á hótelinu Hilton Cabana fyrir og eftir siglingu, sem er fínasta hótel en

Ströndin við Lions Dive á Curacao

staðsetningin hentaði e.t.v. ekki sem best þar sem hótelið er varla í göngufæri við South Beach né heldur við verslunarmiðstöðvar eða annað sem ég var að sækja í. En hótelið var fínt og hægt að ganga út á strönd, sem var örlítið löskuð eftir hvirfilbylinn Irmu sem var að djöflast þarna nokkrum vikum áður.

Siglingin á Carnival Vista var átta nætur og í mjög stuttu máli þá var hún svona uppbyggð:

Við fórum um borð á laugardegi og leysti skiptið landfestar seinni partinn. Sunnudagur var dagur á sjó og þá gafst góður tími til að skoða skipið og kynna sér hvaða afþreying var í boði.

Glæsileg eðla á Aruba

Á mánudegi fórum við í land í Amber Cove við Puerto Plata á Dóminíska lýðveldinu. Þar fór ég í skoðunarferð með nokkrum farþegum þar sem við heimsóttum m.a. skóla, heimili og fórum á boogie board á ströndinni. Frábær dagur og margt sem situr eftir.

Á þriðjudegi lögðum við aftur að landi á Dóminíska lýðveldinu, að þessu sinni við La Romana. Þá fórum við nokkur með leigubíl að skoða Altos de Chavón, sem er endurbyggt þorp í anda nýlendutímabilsins.

Á miðvikudegi stigum við á land á Aruba. Eyja sem ég var lengi spennt fyrir en eftir smjörþefinn hef ég enga þörf fyrir að fara þangað aftur.

Á fimmtudegi var eyjan Curacao heimsótt. Eyja sem ég vissi varla að væri til en sem mig dauðlangar að heimsækja aftur. Bærinn Willemstad var krúttlega sjarmerandi og ströndin við Lions Dive hótelið hrein, góðir bekkir og sjórinn tær. Afslappandi dagur.

Föstudegi og laugardegi var varið á sjó og leið tíminn hratt við að njóta alls þess sem skipið bauð upp á. Komið var í land á sunnudegi. Við gistum í Miami tvær nætur eftir siglingu og flugum í beinu flugi heim til Keflavíkur.

Sigling um Miðjarðarhafið

Seinni siglingin var farin í apríl 2018 frá Barcelona. Við gistum á hótelinu Rivoli Ramblas fyrir og eftir siglingu, hótelið er staðsetti ofarlega á Römblunni, örstutt frá Placa de Catalunya. Frábær staðsetning og gott hótel.

Dómkirkjan og klukkuturninn í Flórens

Siglingin á Carnival Horizon var í eina viku - frá sunnudegi til sunnudags. Hún var í mjög stuttu máli svona uppbyggð:

Siglt var frá Barcelona seinni partinn á sunnudegi og mánudeginum var varið á siglingu.

Komið var í land á Sikiley á þriðjudegi, bærinn Messina skoðaður, dáðst að klukkuverkinu og pizza etin.

Á miðvikudegi var lagt að í Napólí. Ég fór með farþegum í skoðunarferð um Pompeii og um Amalfi ströndina með viðkomu í bænum Amalfi. Fallegt svæði og væri óvitlaust að skoða Amalfi ströndina nánar síðar.

Trevi gosbrunnurinn í Róm

Á fimmtudegi lögðum við að í Civitavecchia. Eldsnemma að morgun fór ég með farþegum í skoðunarferð til Rómar. Við skoðuðum m.a. Péturskirkjuna, hringleikahúsið og Trevi gosbrunninn. Glæsileg borg sem ég þarf að koma aftur til síðar og dvelja í nokkrar nætur.

Á föstudegi komum við til Livorno og fór ég þá í skoðunarferð til Flórens og Pisa. Flórens er klárlega borg sem mig langar að skoða nánar en mannmergðin í Pisa (og sú staðreynd að þessi turn er ekki neitt neitt) sannfærir mig um að þangað þurfi ég ekki að fara aftur. En Flórens...já klárlega. Borg sem er löðrandi í fallegum byggingum, innblæstri og sköpun.

Laugardeginum var svo varið í Marseille...nema ég var nú aðallega bara á skipinu að slaka á eftir síðustu daga, sem allir hófumst mjög snemma.

Komið var í land á sunnudegi og gist í Barcelona eina nótt áður en flogið var heim seint að kvöldi mánudags.

Af hverju finnst mér siglingar frábær ferðamáti?

Litla sundlaugin og pottar aftast í skipinu.

Stærsti kostur við siglingar er að ferðast til nokkurra staða án þess að þurfa að pakka ofan í tösku og keyra eða fljúga á milli borga/staða/eyja.

Auðvitað nær maður ekki að sjá allt á viðkomustaðnum en stutt heimsókn á staðina gefur góða tilfinningu fyrir því til hvaða staða mig langar að fara aftur og verja þá meiri tíma þar. Eins sé ég fljótlega hvort löngun mín til þess að kynnast staðnum nánar sé nákvæmlega engin!

Að gista á skemmtiferðaskipi er eins og að vera á mjög stóru hóteli með öllu inniföldu. Nema, á hótelum er oft bara einn veitingastaður (kannski tveir til þrír ef hótelið er þeim mun stærra eða flottara). Á skemmtiferðaskipi er hinsvegar hægt að velja á milli fjölmargra veitingastaða, allt frá því að setjast niður og vera þjónað til sætis til hlaðborðs sem hægt er að stökkva á.

Í innri káetu (ekki með glugga eða svölum)

Afþreyingin um borð er líka fjölbreytt. Leiksýningar öll kvöld, kvikmyndasalur, uppistandsklúbbur, "sing along" píanóbar, diskótek, sportbar, spilavíti, útibíó og jú svo var spilað bingó, trivial og lip sing battle. Barnaklúbbar, unglingaklúbbar og ungmennaklúbbar. Vatnsrennibrautir og bókasafn. Körfuboltavöllur og Spa. Sannarlega eitthvað fyrir alla.

Nú eru skipafélögin ólík. Ég hef bara siglt með Carnival Cruise line en mig langar að prófa önnur skipafélög, sjá muninn á þjónustunni um borð og stemmingunni á skipinu. Carnival er frábært fjölskylduskip, alltaf nóg um að vera og mikið stuð. Í raun skil ég ekki af hverju íslenskar fjölskyldur fara ekki meira á skemmtiferðaskip. Jú, kannski langt flug þegar farið er í Karabíhafið, en miðað við þau verðdæmi sem ég hef skoðað þá er frí á skemmtiferðaskipi ekkert dýrara en frí á góðu hóteli með öllu inniföldu.

Þó svo að Carnival sé fínt fjölskylduskip þá eru auðfundnir staðir um borð þar sem hægt er að sötra mojito í rólegheitum og horfa á hafið, án þess að hafa gólandi krakka eða glymjandi tónlist í eyrum. Svo er líka svæði á skipinu sem börn eru hreinlega ekki velkomin á (þar sem eru heitir pottar, sólbaðsaðstaða og bar).

Ókostir skemmtiferðaskipa?

Þau menga...fáránlega mikið.

Ég vildi að tæknin tæki stökk og skipin væru umhverfisvænni...þá gæti ég siglt án samviskubits (sem jú nagar).

RECENT POSTS:
SEARCH BY TAGS:
No tags yet.
bottom of page