top of page

Magnaða Madrid

Höfuðborg Spánar, Madrid, er kraftmikil og krúttleg stórborg. Iðandi af lífi, menningu og fallegum mannvirkjum. Þegar ég heimsæki borgina fell ég fyrir henni aftur og aftur. Og það verðskuldað.

Hvort sem ég er í stuði fyrir konungshöll, dómkirkju, búðaráp, góðan mat, fjörugan fótboltaleik, listasöfn, nautaat, mannlífsgláp á torgum eða afslöppun í árabát í Retiro garðinum þá hefur Madrid upp á allt að bjóða.

Það er betra að halda með heimamönnum þegar farið er á fótboltaleik. Eitt kvöld í hausthita fór ég að

sjá Real Madrid með Ronaldo fremstan í flokki taka á móti mínu liði í la Liga, Malaga. Ég sat á meðal heimamanna og það var erfitt að fela glottið þegar leiknum lauk með markalausu jafntefli. Mínir tíu leikmenn gengu borubrattir af velli á meðan CR7 fórnaði höndum og vökvaði grasið á hinum glæsilega leikvangi Bernabeu með söltum tárum.

Klassískt er að byrja á því að mynda konungshöllina og dómkirkjuna Almudena, jafnvel eyða dágóðum tíma í að ímynda sér að hafa verið einn af gestum konunglega brúðkaupsins árið 2004. Rölta svo upp á Plaza Mayor og horfa á mannlífið. Fá sér jafnvel salibunu með tveggjahæða strætisvagninum til að fá yfirsýn og spara sér gönguna. Mér finnst reyndar túrinn í vagninum óþarfur, þar sem stutt er á milli helstu staða. Auk þess voru agaleg læti sett inn á milli fróðleikspunkta í hljóðkerfinu, sumir kalla þetta tónlist en ég legg aðra merkingu í það orð. En ekki það...strætisferðin er fín fyrir fótfúna sem geta sýnt snerpu við að taka niður heyrnartólin þegar óhljóðin byrja.

Það er auðvelt að versla í borginni og sem betur fer engin þörf á því að loka sig inni í verslunarmiðstöð. Gran Via hefur ógrynni af búðum sem bjóða manni fatnað til sölu og götur sem liggja frá Gran Vía og niður á Puerta del Sol. Sjálf nenni ég nú ekki búðarrápi þegar ég er get valið að gera eitthvað annað. En fimm hæða Desigual er verslun sem ég geng ekki svo glatt fram hjá án þess að kíkja inn og sækja mér nýjar spjarir.

Ófáir tapasstaðir eru í borginni og þrælskemmtilegur matarmarkaður (San Miguel) er opinn fram á miðja nótt. Hráskinka, ostar og rauðvín - hin heilaga þrenning er auðfundin. Og fyrst við erum byrjuð að tala um kalóríur, má ég þá kynna aðal bombuna: Churros með súkkulaði. Churros eru djúpsteiktar unaðslengjur (svona sambland af kleinu og kleinuhring) sem gjarnan er dýft ofan í súkkulaði. A moment on your lips, forever on your hips...en svo sannarlega þess virði. Slurp.

Madrid...meira að segja nafn borgarinnar er djúsí og hægt að kjamsa á því...er ein af mínum uppáhalds borgum. Það má samt eiga margar uppáhalds þegar farfugl er hrifnæmur!

Eins er stutt að keyra frá Madrid til áhugaverðra staða í nánasta nágrenni.

Escorial:

Í þessum litla bæ er að finna gríðarstóra höll sem áður var heimkynni konungsfjölskyldunnar, klaustur, skóli og basilíka með grafhvelfingu konungsfjölskyldunnar. Bærinn sjálfur er umvefur höllina gæti auðveldlega fengið dúlluverðlaun.

Valle de los caídos (Dalur hinna föllnu):

Einn af þessum stöðum sem fær hárin til að rísa og sem grefur sig í minnið.

Fyrst sést 150 metra hár kross ofan á lágreistu fjalli. Þegar búið er að leggja bílnum og ganga að fjallinu er hægt að sjá hvernig fyrrum einræðisherra Spánar, Francisco Franco, lét grafa út fyrir basilíku inn í fjallið. Fyrst er gengið inn langan gang sem leiðir mann inn í hvelfinguna. Hæsti punktur basilíkunnar er 1350 metrar - og þetta er enginn moldarhellir! Inni í basilíkunni eru grafhvelfingar fyrir fjölmarga sem létust í Borgarastríðinu. Eftir að Franco lést voru líkamsleifar hans færðar yfir í basilíkuna.

Avila

Að heimsækja Avila er eins og að kíkja við á leikmynd þáttaraðar sem gerist á miðöldum. Virkisveggur nær utan um alla borgina og honum er haldið vel við. Varðturnar rísa upp með jöfnu millibili og göturnar innan múranna eru þröngar og henta betur hestum en bílum. Klárlega þess virði að heimsækja bæinn og fá sér göngutúr...einn galli - það vantar ísbúð inni í gamla bænum!

Áhugamenn um Jakobsveginn ættu að vita að það liggur pílagrímsslóði í gegnum Avila og því má sjá gular örvar spreyjaðar víða um strætin til að vísa þreyttum pílagrímum leiðina til Santiago.

Segovia

Hvernig leggur maður pípulagnir þegar maður er Rómverji til forna? Jú...lyftir upp jörðinni! Í Segovia er ekki bara fáránlega falleg dómkirkja byggð í gotneskum stíl og ævintýralegur kastali sem hæfir hvaða prinsessu sem er, heldur einnig sú glæsilegasta vatnsveitubrú sem ég hef séð. Talið er að Rómverjar hafi reist vatnsveitustokkinn ca. 50 árum fyrir Krist og er honum vel við haldið. Hann er 813 metrar að lengd og tæplega 30 metrar að hæð. Og í Segovia eru líka nokkrar góðar ísbúðir...

Toledo, hinn söguríki staður sunnan Madridar, á líka að vera áhugaverður...en þangað hef ég ekki enn komið.

Sem er frábær ástæða fyrir því að fara aftur til Madridar...og falla enn og aftur kylliflöt fyrir höfuðborginni

RECENT POSTS:
SEARCH BY TAGS:
No tags yet.
bottom of page