top of page

Lostafulla Lissabon

Höfuðborg Portúgals, Lissabon, er ákaflega heillandi borg.

Hún liggur við ána Tejo (Tagus) sem á upptök sín í Aragon á Spáni og mætir Atlantshafi rétt utan við Lissabon. Miðbærinn skiptist upp í nokkur hverfi sem öll hafa sinn sjarma. Ef kortið er skoðað þá er Alfama til hægri við verslunartorgið og það hverfi er elsti hluti borgarinnar. Þar eru þröngar hellulagðar götur sem liggja upp hæðina frá Tejo og upp að kastalanum. Í hverfinu leynast litlir barir og veitingastaðir sem bjóða upp á fado tónlist seint að kvöldi. Baixa hverfið er svæðið sem liggur frá Verslunartorginu og að Rossio torgi, þar finnast ógrynni af veitingastöðum, kaffihúsum og verslunum. Til vinstri við Baixa er Barrio Alto og Chiado, Chiado liggur upp hæðina og Barrio Alto er hæðin. Í Chiado eru margar verslanir og kvöldlífið er fjörugt í Barrio Alto. Fyrir utan miðbæinn eru síðan tvö hverfi sem ferðamenn sækja gjarnan í, annars vegar Belém og hins vegar Parque de las Naciones, sem er svæðið sem Expó sýningin var haldin 1998.

Belem hverfið er í ca. 6 km fjarlægð frá Verslunartorginu og er að mínu mati algjör skylda að kíkja þangað. Belemturninn, sem er á öðru hverju póstkorti frá borginni, er að finna í hverfinu sem og landafundamerkið (til minningar um sjóferðir og landafundi Portúgala), Jerónimos klaustrið og Santa Maria kirkjuna (myndin til hliðar). Í kirkjunni hvíla landkönnuðurinn Vasco de Gama og ljóðskáldið Luís de Camões.

Lissabon er byggð í hæðum og því nokkuð á fótinn. Gangstéttir í miðbænum eru hellulagðar og verða sleipar í rigningu. Sléttbotna skór eru því ákjósanlegri en þeir háhæluðu og sjálf arka ég yfirleitt um borgina klædd strigaskóm. Á nokkrum stöðum er hægt að taka sporvagna á milli hverfa og hjálpar það til við að spara sporin. Eins eru leigubílar hagstæðir og svo er neðanjarðarlest sem hægt er að nýta sér.

Það er mjög gott að versla í Lissabon og verðlagið hagstætt. Þeir sem ekki hafa ofnæmi fyrir verslunarmiðstöðvum geta notið sín í Colombo verslunarmiðsöðvarskrímslinu eða farið í ögn "vinalegri" verslunarmiðstöð sem heitir eftir hinum landkönnuðinum...Vasco de Gama (og er staðsett á Expó svæðinu). Líkt og í öðrum borgum kýs ég þó að versla í miðbænum og það eru ófáar verslanir á Augusto götunni í Baixa og þar í kring. Rétt fyrir ofan Eduardo VII garðinn má líka finna El Corte Ingles og fleiri verslanir.

Lissabonbúar eru frábærir heim að sækja. Flestir tala góða ensku og eru áhugasamir um ferðamennina. Það eru tvö fótboltalið í borginni sem gaman er að komast á leiki með. Sporting Lisboa, sem var fyrsta liðið sem Ronaldo spilaði með sem atvinnumaður og Benfiga. Um að gera að reyna að fá miða á völlinn sé borgin heimsótt. Og ef liðin eru að keppa innbyrðis, getur myndast svaðalega fín stemming á börum bæjarins!

Fado er þjóðlagatónlist Portúgala og bjóða margir veitingastaðir og barir upp á lifandi fado. Oftast byrja listamennirnir ekki að þenja raddböndin og plokka strengina fyrr en seint að kvöldi, upp úr klukkan ellefu kannski. Yfirleitt er lifandi fado auglýst fyrir utan staðinn, á krítartöflu eða öðru skilti. Amáliu Rodrigues er sérstaklega minnst fyrir að hafa kynnt fado tónlistina fyrir umheiminum. Þegar hún lést árið 1999 varð hún fyrsta söngkonan að fá ríkisútför, sem virðingarvott fyrir framlag hennar til menningar Portúgals. Myndbrotið hér til hliðar (sem ég fann á Youtube) er af Marizu, sem gerði fado tónlistina aftur vinsæla í Portúgal, eftir að tónlistin hafi verið í ákveðinni lægð um tíma. Stundum, þegar mig vantar góða slökun eða þarf að einbeita mér að einhverju, þá set ég Marizu á fóninn. Því tónlist hennar er guðdómleg.

Það sem ég kann best að meta við borgina er tempóið...takturinn sem umvefur borgarlífið. Það er líkt og hugleiðsla að rölta í gegnum ilminn sem kemur af ristuðum hnetum á götu úti, heyra tregafulla fado tónlistina frá börum og horfa á skröltandi sporvagnana.

Sintra

Er bær í hlíðunum fyrir utan Lissabon sem gaman er að heimsækja. Bærinn er krúttlegur með þröngum götum, nokkrum bakaríum og handverksbúðum. Í bænum er ein konungshöll sem hægt er að greiða sig inn til að skoða. Sjálf hef ég þó meira gaman af því að fara í Pena höllina sem er örlítið fyrir utan miðbæinn. Sú höll er algjör ævintýrahöll, enda var akritektinn undir miklum áhrifum frá þýskum höllum, sérstaklega Nýja Svanasteinsins. Það eru tvær aðrar hallir nálægt miðbæ Sintra og svo má ekki gleyma múrnum sem Márarnir reistu á sínum tíma sem trónir efst í hlíðinni fyrir ofan bæinn.

Estroil og Cascais

Tveir strandbæir sem eru rétt fyrir utan Lissabon. Á sumrin er óvitlaus hugmynd að taka lestina eða strætó yfir í strandbæina og henda sér í sandinn í smá D-vítamín söfnun.

RECENT POSTS:
SEARCH BY TAGS:
No tags yet.
bottom of page