top of page

Marglita Marokkó

Ljósmynd: Orri Sigurjónsson. Höfundarvarin en birt hérna með leyfi Orra.

Imlil og Atlasfjöllin

Í lok september 2019 lá leið mín til Marokkó, nánar tiltekið í göngu um Atlasfjöllin og borgarstroll um Marrakech. Ég fór með vinnufélögum í Ultima Thule og þeirra mögnuðu mökum. Hluti hópsins flaug til Marrakech í gegnum London og hinn í gegnum París, ég var í Lundúnarhópnum og japlaði á steak & ale pie í millilendingu. Góð byrjun á ferðalagi.

Við lentum að kvöldi til og fyrir framan flugstöðvarbygginguna biðu eftir okkur tvær litlar rútur og rúmlega klukkustundar akstur til Imlil. Þar sem myrkrið tók frá okkur allt útsýni náðu flestir smá kríu á meðan akstri stóð.

Í kolniðarmyrkri fetuðum við síðan stíg frá götunni að Riadinu sem við gistum á (Riad Jnane), farangurinn vaggaði á múldýrum sem eltu okkur. Það voru svangir ferðalangar sem settust við borð í matsalnum, umlukin veggjum skreyttum flísum með samhverfu mynstri. Gómsæt grænmetissúpa var borin á borð ásamt nýbökuðum brauðklöttum, sem við rifum í okkur. Södd og þreytt eftir ferðalagið vorum við tilbúin að leggjast á kodda...en þá kom aðalrétturinn. Kjúklingur eldaður yfir opnum eldi í taginu (eldfast mót úr leir með loki sem endar í stút...um að gera að gúgla tajine eða tagine til að sjá mynd) ásamt kúskús, gulrótum og öðru gúmmilaði. Síðan kom eftirréttur og máttum við þakka fyrir að komast í rúmið fyrir seddu.

Fyrsti göngudagur - Berbar

Ljósmynd: Orri Sigurjónsson. Höfundarvarin en birt hérna með leyfi Orra.

Daginn eftir hófst gangan strax eftir sturtu og morgunmat. Við röltum um nærsveitir Imlil í gegnum Berbaþorp. Berbar eru frumbyggjar Norður-Afríku og voru við völd þar til Márar náðu yfirhöndinni. Í Atlasfjöllum búa margir Berbar og hafa þeir sitt tungumál og sína menningu. Í göngunni reyndum við að pikka upp þessi helstu orð sem gott er að kunna, eins og að þakka fyrir sig og heilsa. Leiðsögumennirnir, sem allir voru Berbar, kenndu okkur bæði að segja hlutina á berbísku og arabísku. Við sáum húsakynni heimamanna, konurnar í þorpunum og húsdýrin. Sum húsin voru hálfgerðir leirkofar á meðan önnur voru hlaðin með hleðslusteinum. Það stakk í stúf að sjá einn og einn gervihnattadisk ofan á eða til hliðar við leirhúsin.

Ganga dagsins minnti mig enn einu sinni á það hversu mikil gæfa það er að fæðast á Íslandi. Hversu gott við höfum það þrátt fyrir allt hvunndagsnöldrið. Við vorum með þrjá leiðsögumenn og drógu þeir fram þakklæti í hjarta mínu til formæðra minna sem hafa í gegnum áratugina barist fyrir kynjajafnrétti á Íslandi. Það er ekki daglegt brauð að finnast, þrátt fyrir kurteisi og bros, að kona sé í raun metin neðar en húsdýr!

Við komum að hádegisverðarstaðnum og þar var búið að dekka upp á borð og útbúa siestubæli. Eftir matinn fengum við nefnilega fjörutíu og fimm mínútna siestu þar sem við lögðumst á meltuna í orðsins fyllstu. Svo var lagt aftur af stað í átt til bæjarins Matat, þar sem gistiheimili beið okkar.

Ljósmynd: Orri Sigurjónsson. Höfundarvarin en birt hérna með leyfi Orra.

Eftir berkjubólgu sumarsins var ég búin að aðlaga gönguferðina að heilsu minni, þ.e. stytta hana því ég vissi að ég væri hvorki í formi né með lungu sem kæmu mér með góðu móti upp á Toubkal, hæsta fjall Norður-Afríku. Ég vissi hver hækkun fyrstu tveggja daga væri og að ég réði við þessa tvo daga. Ég gerði hins vegar ekki ráð fyrir því hversu þurrt og rykugt loftið væri. Ég sá fyrir mér ferskt fjallaloft en hefði auðvitað átt að gera ráð fyrir Sahara eyðimörkinni sem er jú þarna réééétt hjá og í lok fyrsta göngudags fann ég að öndunin var eitthvað að þyngjast. Ég var endalaust þyrst, eins og munnurinn væri veggfóðraður sandpappír.

Þegar við komum í hús fengum við mintu-te, popp og kex. Sátum úti á þaksvölum, teygðum á skrokknum og nutum samverunnar. Einhverjir stukku í sturtu en ég ákvað í upphafi göngu að fara langt út fyrir þægindarammann og ekki fara í sturtu þar til ég kæmi aftur til Imlil...sem er mega...því ég elska að baða mig! Endurfæðast undir sturtunni, dýfa mér ofan í heitt baðkerið og finna hvernig húðin og sálin marínerast í vatninu. Nei, kattarþvottur yrði fyrir valinu frá þessum sunnudagsmorgun og þar til ég kæmi aftur til Imlil á þriðjudegi. Í mínum huga var þetta eins og nokkrir mánuðir!

Það var kallað í mat og þegar súpan kom vissum við að þetta væri bara forréttur þannig að við rétt dreyptum á henni (segjum að það hafi verið eina ástæðan). Síðan kom aðalrétturinn og eftirréttur - án margra orða þá verður að segjast að matur í Marokkó er góður. Restin af ferðinni átti bara eftir að halda áfram að sanna það. Þegar leiðsögumennirnir voru að útskýra hvernig morgundagurinn yrði þá heyrðum við söng kvenna berast inn um gluggann. Leiðsögumaðurinn útskýrði hvað væri að gerast. Við fórum út og fylgdumst með halarófu af prúðklæddum, syngjandi konum fylgja kynsystur sinni út úr þorpinu heim til mannsins sem hún var að giftast.

Við vorum með nokkur fjögurra og fimm manna herbergi þar sem við hreiðruðum um okkur og allir komnir í ró um ellefu.

Annar göngudagur - Dragbítur

Áður en haninn gól og bænakallið ómaði vaknaði ég. Stumraði fram á bað og hóstaði upp asmaslími. Klukkan var fjögur og enn þrír tímar í að vekjaraklukkan myndi hringja. Ég fór út á þaksvalirnar en breikaði aftur inn því þar lágu leiðsögumennirnir og múldýrstemjararnir á flatsæng og hrutu. Læddist aftur inn í herbergi og þóttist sofa þar til vekjaraklukkan vakti okkur öll fyrir morgunmat.

Ljósmynd: Orri Sigurjónsson. Höfundarvarin en birt hérna með leyfi Orra.

Við byrjuðum daginn á að ganga rólega upp fjall og klöppuðum okkur á bakið þegar við vorum komin í sömu hæð og Hvannadalshnjúkur, ég reyndar náði því ekki hvort það væri fyrir lækkun eða ekki enda átti ég fullt í fangi með að anda og koma mér upp hæðina. Útsýnið var dásamlegt og ekki slæmt á mánudegi að njóta þess að vera lítið peð í miðri fjallaskál. Það lyftist á mér brúnin þegar stígurinn lá niður á við, í fyrsta sinn gengum við smá spotta niður og niður og niður. Mér lærðist að ég er miklu meira fyrir að ganga ofan í holur heldur en upp á fjöll!

Við röltum svo niður í lítið þorp sem ég held að heiti Id Aissa og þar fundum við lúgusjoppu. Við keyptum vatn og ég fékk mér appelsínudrykkinn Mirinda, sem var svo sætur að tennurnar mínar settu upp brynju.

Áfram var gengið og að árfarvegi, þar var búið að stilla upp borðum, stólum og hvíldarbæli. Við nærðumst, hvíldumst og nutum þess að fylgjast með heimamönnum sem áttu leið hjá. Einn lítill drengur var orðinn leiður á því að ganga á eftir móður sinni og henti hann sér fýlulega niður í sönduga götuna í mótmælaskyni. Móðirin tosaði hann upp við litla gleði þess stutta og við brostum. Það er sama hvar þú ert, foreldrar þurfa allir að glíma við tryllingsköst tveggja ára.

Eftir matinn voru tveir tímar á göngu eftir. Skondið að þegar við spurðum hvað mikið væri eftir var okkur alltaf svarað í tíma, ekki vegalengdum. Ég vissi að hækkunin sem var eftir var um það bil eitt Helgafell. Það var vel heitt og mikið ryk í loftinu. Ég paufaðist áfram og fljótlega var ég enn og aftur orðin síðust. Hægar en hægt silaðist ég upp hverja brekkuna af fætur annarri, hugsaði með nostralgíu um brekkuna niður fyrr um daginn. Einn leiðsögumaðurinn varð eftir með mér þar sem bilið á milli mín og hópsins jókst. Brekkan (fjallið í mínum huga) endaði í Berbaþorpi og spjallaði hann við heimamenn á meðan ég náði andanum og drakk vatn, pústaði mig með ventolini og reyndi að hósta upp rykinu. Ein kona í þorpinu sagði okkur frá því að heimamenn væru að gera upp hús sem átti að verða félagsheimili fyrir konurnar í þorpinu. Þar gætu þær hist, unnið handverk og fengið farandkennara til að koma og halda námskeið í því sem konurnar kysu.

Ljósmynd: Orri Sigurjónsson. Höfundarvarin en birt hérna með leyfi Orra.

Í þorpinu náðum við í skottið á hópnum og mér til mikillar mæðu vissi ég að ég var bara komin upp eins og hálft Helgafell. Öndunin var í ruglinu, sviði við hverja innöndun og þyngsli fyrir brjósti. En það var ekkert annað í stöðunni en að bíta á jaxlinn og halda áfram. Ég byrjaði með þeim fremstu þegar við löggðum aftur af stað, erfiðaði við hvern andardrátt og hleypti einum og einum fram úr mér þar til ég var enn og aftur orðin dragbítur. Tvö úr hópnum ásamt einum leiðsögumanni gengu hægt með mér en í hvert skipti sem ég lagði af stað rauk púlsinn upp í 160 á núll einni. Ég taldi niður metrana sem ég átti eftir í hækkun og þegar ég sá síðan bannsettan stíginn taka dýfu niður og strax aftur upp lá við að ég, líkt og drengurinn í hádeginu, henti mér niður á stíginn og mótmælti. Þegar þú erfiðar við að anda þá er hreinlega ósanngjarnt að stígurinn steli af þér nokkrum metrum af upphækkun með því að láta þig fara aftur upp þessa sömu metra. Ég barðist við að fara ekki að grenja því nákvæmlega þarna efaðist ég stórlega um að ég myndi hafa það af að komast í fjallaskálann. Ég yrði bara að sofa þarna úti um nóttina og vona að sveðjumenn kæmu ekki og gerðu mig höfðinu styttri. Dramatískar hugsanir? Já! Heldur betur.

Hópurinn var horfinn sjónum og ég var svo þakklát fyrir þau tvö sem nenntu í alvörunni að hanga í hægagangi með mér, standa í miðri hlíð og draga djúpt inn andann, ná niður púlsinum og peppa mig upp fyrir næstu fimm metra hækkun. Og meira að segja var ég þakklát leiðsögumanninum, sem sífellt sagði "yalla yalla" til að segja mér að drattast úr sporum. En svo, í miðri auðninni, sáum við hann...Engil í mannsmynd að selja vatn, kók og aðra gosdrykki, kælda með bunu úr sturtuhaus. Sjaldan hef ég glaðst jafn mikið yfir köldu koffíni. Og ekki nóg með það, heldur sáum við líka fjallakofann. Markmiðið var í nánd. Hinir í hópnum voru komnir og við sáum þau standa úti á þaksvölunum.

Þegar við skiluðum okkur í hús var ég svo þakklát að á morgun yrði ég bara keyrð til Imlil þar sem ég gæti slakað á þar til hópurinn kæmi niður af Toubkal á fimmtudeginum.

Kvöldmaturinn var klukkan sjö og aftur fengum við dásamlegan mat og var mikið spjallað og hlegið við borðið. Þar sem morgunmatur var rúmlega fimm daginn eftir var farið snemma í háttinn þetta kvöld.

Þriðji göngudagur - Transfer

Í myrkri vöknuðum við og fórum í morgunmat. Ég hóstaði upp úr mér slími og leist hvorki á litinn né bragðið, vissi að þetta boðaði ekki gott. Það hrygldi í fráöndun, sem er enginn næturgalasöngur. Þriðjudagur og hópurinn myndi ganga í grunnbúðir Toubkal í dag en ég átti að fá transfer til Imlil. Það var reyndar enginn vegur sem lá upp að fjallakofanum og mig grunaði ég þyrfti að ganga niður í þorpið sem lúgusjoppan var í, sem við fórum í gegnum í gær, til að komast í bíl. "Þetta er allt í lagi," sagði ég við sjálfa mig "Stígurinn liggur að mestu niður á móti og við ráðum við það!" Sjálfspepp fyrir klukkan sex að morgni er ekki mitt hvassasta vopn!

Klukkan sex fórum við öll út og þar voru leiðsögumennirnir klæddir í dúnúlpur með húfur og litu út eins og þeir stefndu upp á jökul. Samferðamenn mínir voru sumir í stuttbuxum og það hlýjasta utan á þeim var peysa. Ég kvaddi þau og þá þrjá leiðsögumenn sem fylgdu hópnum. Sólin var ekki komin upp og ég horfði á dúandi höfuðljósin sem þau voru með hverfa inn í myrkrið undir stjörnubjörtum himni. Ljóðrænt og falleg.

Svo skreið ég aftur upp í rúm og hallaði augunum í tæpan klukkutíma þar sem ég átti ekki að leggja af stað með mínum leiðsögumanni fyrr en rúmlega sjö.

Það var tekið að birta en sólin var ekki komin upp yfir fjöllin þegar við lögðum af stað. Ég spurði hvort það væri rétt skilið hjá mér að planið væri að ganga niður í bæinn frá því í gær og þar biði bíll. Svarið sem ég fékk var einfaldlega "treystu mér". Ég spurði aftur...og í þriðja sinn með því að umorða spurninguna og þegar hann sagði mér í þriðja skipti að treysta sér hafði ég engan húmor fyrir þessum manni. Af hverju gat hann ekki útskýrt fyrir mér, þó svo að ég væri kona, hvernig planið væri. Við gengum löturhægt til að halda púlsinum niðri og önduninni starfandi. Ég hugsaði með mér að eftir allt saman þá væru sveðjumenn í fjöllunum kannski ekki það sem ég þurfti að óttast mest, ég myndi detta niður dauð án þeirra.

Og fyrir klukkan átta tuðaði ég yfir því að ég gæti ekkert gengið til Imlil, það væri allt of mikil hækkun, ég yrði að fá leigubíl eða þyrlu, að lungun á mér væru korteri frá því að hætta að virka og ég kvartaði og kveinaði með örlagaþrungnum og móðursjúkum lýsingum á vanmætti mínum. Þrátt fyrir að vera sá konfektmoli sem ég er þá kveikti leiðsögumaðurinn einfaldlega á bænakirjun í símanum sínum og þaggaði niður í vælandi kerlunni með því að hækka í hljóðstyrknum. Það sauð á mér, skildi þessi maður ekki að ég gæti engan veginn gengið þetta.

Múldýrstemjari var kominn fyrir aftan mig með múldýr í eftirdragi. Ég steig til hliðar til að hleypa þeim fram úr en með handabendingum sagði hann mér að hann væri að trússa farangurinn minn. Og með bænakirjun ómandi yfir okkur sá ég skuggann af leiðsögumanninum, mér, múldýrstemjaranum og múldýrinu þegar við beygðum fyrir horn. "Hættu þessu tuði," sagði ég við sjálfa mig "sjáðu bara hvar þú ert!". Sólin var að koma upp fyrir fjallsbrúnina, ég var í Atlasfjöllunum með tveimur heimamönnum og múldýri. Hvort það voru sterarnir eða einhver himnesk upplitning þá snerist hugurinn og ég hætti að líta á allt það neikvæða og varð klökk yfir fegurðinni, augnablikinu og upplifuninni. Við námum staðar og drukkum vatn, sólargeislarnir voru að skríða yfir fjöllin og þá myndi hlýna.

Þegar við stóðum upp til að leggja aftur af stað sagði leiðsögumaðurinn: "Jæja, hoppaðu upp á leigubílinn þinn," og benti á múldýrið. Transfer dagsins var ekki leigubíll og alls ekki þyrla...heldur múldýr. Það þurfti nú ekki að bjóða mér skepnuna tvisvar. Aumingjans dýrið bar mig úr 2250 metrum í 2500 metra hæð. Másandi og blásandi fetaði það stíginn varlega þar til við vorum komin efst upp á fjallið og horfðum niður í Imlil dalinn. Þá steig ég af baki og var aum í kinnunum (þú mátt ráða hvort þú lesir þetta sem svo að ég hafi verið aum í kinnunum út af fíflalegu brosi upp alla hæðina...ég vissi ekki hvað það væri gaman að þeysa upp fjall á múldýri. Nú eða rasskinnum út af reiðinni...)

Leiðin niður fjallið var auðveld, það reynir jú ekki eins á öndunina að húrrast niður fjall en að hlunkast upp það. Þegar niður var komið sagði leiðsögumaðurinn mér að herbergið mitt væri ekki tilbúið, enda klukkan bara að verða tíu. Við fórum til vinar hans sem gaf okkur mintu-te og eggjahræru. Sátum hjá honum í rúman klukkutíma eða þar til herbergið var tilbúið. Þá fyrst sagði hann mér að setjast inn í bíl og að hann skyldi keyra mig upp á Riad. Við keyrðum í gegnum þorpið og eins og í litlu sjávarplássi þekkti hann alla sem við mættum.

Það var gott að koma inn á herbergi og það fyrsta sem ég gerði var að fara í langa, heita sturtu. Skolaði af mér rykinu og svitanum. Rölti svo upp á þaksvalirnar, fann dýnur og kodda í skugga og henti mér í það bæli. Lá með bók og lét vikapiltinn á hótelinu sækja fyrir mig kók. Mér var heitt og ég naut þess að vera komin í hálfgerða hvíldarinnlögn hér í Imlil. Hugsaði til hópsins sem nú væru að puða upp og niður fjall til að komast í grunnbúðir Toubkal og sendi þeim góða göngustrauma. Fékk mér svo kríu. Vaknaði við að kokkurinn á hótelinu kom og sagði að kvöldmatur yrði klukkan sjö og að við værum bara fjögur á Riadinu.

Ég las og naut þess að slaka á þar til komið var að kvöldmat, fór þá niður og hitti hina þrjá sem gistu á Riadinu. Einn Englendingur og par frá Wales. Við spjölluðum og hlógum, tókum eitt skyldu húh! og ræddum Brexit og Boris.

Það var dásamlegt að leggjast hrein undir lak og sofna ein í herbergi. Fyrsta nóttin frá því ég kom sem ég svaf í meira en fjórar klukkustundir.

Fjórði göngudagur - Minn fyrsti í hvíldarinnlögn

Ég vaknaði við bænarkallið klukkan sex. Hóstaði upp öllu nema botnlanganum og var komin með hita. Það var ekki lengur hægt að hundsa það, berkjubólgan var upprisin. Ég tók sýklalyf og stera og sendi póst heim til Íslands til að afsegja mig úr vinnuferð sem ég ætlaði að taka nokkrum dögum eftir heimkomu. Þekkjandi þennan fjanda þá vissi ég að ég yrði ekki hundrað prósent fyrir þann tíma og það yrði helber sjálfselska að taka ferðina.

Imlil dalur - þorpið kúrir þarna í fjallsrótum

Morgunmaturinn var klukkan níu og vorum við öll fjögur mætt í hann og fórum yfir plön hvers annars á meðan við borðuðum pönnukökur, egg, klattabrauð og drukkum nýkreistan appelsínusafa.

Síðan settist ég út við sundlaug í skugga. Líkamshitinn þoldi illa sólbað en skuggi og smá gola var góð blanda. Vikapilturinn á hótelinu kom með kók til mín og sagði að það væri rafmagnslaust í bænum til klukkan þrjú. Enginn virtist kippa sér upp við það og mér var hugsað til þess hversu mikið inngrip það væri í íslenskt samfélag ef rafmagnið væri tekið af frá tíu til þrjú á virkum degi. Nóg kvörtum við þegar þeir taka það af um blánótt.

Ég fékk sms frá yfirmanni mínum um að hópurinn hefði vaknað klukkan fjögur og farið upp á Toubkal og þau voru komin aftur niður í grunnbúðir. Hvílíkir naglar, klukkan var bara tíu og þau voru búin að fara upp og niður Toubkal! Þar sem grunnbúðirnar voru nú ekki spennandi staður til að verja deginum í, ákváðu þau að hvílast og nærast og ganga svo niður til Imlil seinni partinn. Við ákváðum að ég myndi hitta þau í kvöldmat á því Riadi sem þau fengju inn á.

Ljósmynd: Orri Sigurjónsson. Höfundarvarin en birt hérna með leyfi Orra.

Ég fékk mér stuttan göngutúr niður í það sem kalla má miðbæ Imlil. Fann tehús uppi á þaki og paufaðist þangað upp, ég held að ég hafi aldrei drukkið jafn mikið te um ævi mína eins og þessa daga hér í Atlasfjöllunum. Áin sem liggur í dalnum flæddi yfir bakka sína árið 1995 og kostaði flóðið um 150 manns lífið ásamt því að ræktarland fór undir vatn og eðju. Bæjarbúar hafa verið iðnir að koma bænum aftur í fyrra horf en í miðjum bænum er risastórt grjót sem kom niður úr fjöllunum í flóðinu, og stendur hann sem minnisvarði um hörmungarnar. Sátt með að hafa viðrað mig smá rölti ég til baka og hélt hvíldarinnlögnin á Riadinu áfram. Ég prófaði að leggja mig víðs vegar; við sundlaugina, uppi á þaki, inni í herbergi.

Svo varð klukkan sex og ég sótt. Það var gaman að hitta aftur hópinn og heyra upplifun þeirra á Toubkal príli. Allir þreyttir en ánægðir með afrek sitt. Eftir matinn var mér skutlað á Riad Jnane og var ljúft að sofna.

Fimmti göngudagur - Teboð

Tók sýklalyf og stera um svipað leyti og bænakallið var að klárast. Lá uppi í rúmi, hlustaði á hvæsandi öndunina og beið eftir því að klukkan varð níu og fór þá niður í morgunmat. Fleiri voru á Riadinu þennan morgun en flestir voru á förum enda hópurinn minn að koma í gistingu um nóttina. Eftir morgunmat fór ég upp á þak til að skrifa og lesa. Lá eins og skata í skugga, naut fjallasýnar og nú, þegar bænarkallið ómaði ekki yfir dalinn, var svo friðsælt í bænum.

Ljósmynd: Orri Sigurjónsson. Höfundarvarin en birt hérna með leyfi Orra.

Síminn hringdi og yfirmaður minn lét mig vita að okkur væri öllum boðið heim til eins leiðsögumannsins í te og spurði hvort ég vildi ekki koma með. Ég hélt það nú. Einn leiðsögumannanna kæmi að sækja mig eftir fimm mínútur. Ég brunaði niður tröppurnar og hitti hópinn, saman gengum við yfir í lítið þorp þar sem leiðsögumaðurinn bjó (auðvitað í efstu brekku þorpsins...ég er að segja ykkur það...allir vegir liggja upp á við í fjöllunum!) og þegar ég segi brekka fannst mér það vera fjall en þau hin fundu líkast til ekki fyrir þessum smávægilegum halla.

Ljósmynd: Orri Sigurjónsson. Höfundarvarin en birt hérna með leyfi Orra.

Það var gaman að koma inn á heimili í Berbaþorpi og veitingarnar voru það besta mintu-te sem við höfðum fengið í ferðinni, brauð, döðlumauk, ólífur, ýmsar hnetur og annað góðgæti. Frá heimili hans lá leið okkar í skógarkjarr þar sem hádegismaturinn var tilbúinn. Eftir hádegismat kvöddum við alla fylgdarmenn okkar fyrir utan leiðsögumennina (þ.e. múltemjarana sem höfðu trússað farangurinn, kokkinn sem eldað hafði ofan í hópinn síðustu fimm daga og aðra aðstoðarmenn). Í rólegheitum röltum við því næst niður á Riad (já niður...minn tebolli). Dagurinn leið hjá við sundlaugarbakkann og um kvöldið áttum við saman okkar síðustu máltíð í Atlasfjöllunum.

Marrakech

Eftir morgunmat pökkuðum við farangri okkar niður og skelltum honum upp á asna. Röltum svo frá Riadinu og niður í miðbæ Imlil þar sem rúta beið okkar til að flytja okkur yfir til borgarinnar Marrakech. Aksturinn tók um einn og hálfan tíma. Við gistum á Riad Africa og biðu tveir menn á þeirra vegum eftir okkur með kerrur þegar rútan rann í hlaðið. Farangurinn var settur upp á kerrurnar og mennirnir drógu þær á eftir sér inn fyrir gömlu borgarmúranna og við skröltum á eftir. Riadið er staðsett neðarlega í medínunni og tók um 5-7 mínútur að ganga á aðaltorgið, Jemaa El Fna. Við fengum herbergin afhent og fórum með farangurinn inn á þau. Fórum svo á veitingastað rétt hjá þar sem mér fannst ég upplifa hádegið eins og ég ímynda mér að letidýr upplifi heiminn. Þessi sýklalyf voru að breyta mér í algjört slytti.

Ljósmynd: Orri Sigurjónsson. Höfundarvarin en birt hérna með leyfi Orra.

Eftir hádegismat hittum við borgarleiðsögumann sem fór með okkur í höll kennda við Bahia og þræddi svo með okkur stræti Souks, sem er nokkurs konar handverksmarkaður medínunnar. Þar er bæði að finna verslunarbása og verkstæði. Fjöldinn allur af karlmönnum eru þarna við störf. Þeir súta, logsjóða, sauma, hamra, pússa o.fl. Loftgæðin í Souks er ekki upp á marga fiska en þeim mun meira er fyrir augun að sjá, eyrun að hundsa og nefið að þefa. Klárlega áhugaverður staður, litríkur og ágengur.

Við fórum líka inn í apótek sem seldi allt gegn öllu...eða svona næstum því. Kaktusolía og arganolía virtust vinna gegn flestum kvillum. En án þess að vera of kaldhæðin þá neita ég því ekki að ég keypti varasalva sem unninn var úr rósaolíu og á tveimur dögum urðu sundurtættu og sólbrenndu varir mínar kyssilegar keppniskeppur!

Leiðsögnin endaði á Fna torginu. Við sprettum úr spori heim á Riad, stukkum í sturtu og smelltum okkur í spariföt því nú skyldi haldið á flottan veitingastað. Staðurinn var einnig næturklúbbur og á milli þess sem við brögðuðum á afbragðsgóðum mat dilluðu magadansmær sér ýmist uppi á borðum eða með kertakransa á höfðum. Og fyrir þá sem vilja dass af matarklámi í textum þá njótið: Í fordrykk pantaði ég romm sem svamlaði í sætri ávaxtablöndu, glasið var lostalega skreytt og klingjandi klakar léku við varirnar. Í forrétt fékk ég mér hægeldaðan mjúkan kjúkling, pökkuðum inn í brakandi bökuðu smjördeigi með möndlumauki og sætum kanil stráðum yfir. Í aðalrétt kom syndsamlega gott nautakjöt löðrandi í sleförvandi sósu, sem ég kann ekki að innihaldsgreina. Hún hét tígrissósa en ég tel að hvorki hafi tígrisrækjur né heldur tígrisdýr komið sögu við gerð sósunnar. Eftirrétturinn, sem jafnframt er mikilvægasti þriðjungurinn í matarþrennunni, var heit og safarík súkkulaðikaka með ísköldum vanilluís sem bráðnaði ofan í hnossgætið. Besti matur ferðarinnar.

Södd og sæl rúllaði ég með leigubíl til baka og sofnaði strax og ég small ofan á koddann.

Give me another price!

Aldrei þessu vant svaf ég í gegnum bænarkallið. Drattaðist á fætur en var þreytt með eindæmum. Berkjubólgan var að taka sinn toll og ef ég hefði verið heima á Íslandi þá hefði ég eflaust bara legið í bælinu og sofið. En ég er nú ekki á hverjum degi í Marrakech og löngunin til að skoða borgina var þreytunni yfirsterkari. Ég gæti hvílt mig síðar...eftir tvo daga.

Ljósmynd: Orri Sigurjónsson. Höfundarvarin en birt hérna með leyfi Orra.

Ég rölti á milli verslunarbása í medínunni og fór inn í Souks. Keypti mér kjól og stílabækur, kanil og póstkort. Hitti svo nokkra í hópnum og við fórum á kaffihús uppi á þaki í miðri medínu. Nutellacrepes og kók kom mér aftur af stað í áreitið. Það er ekki allra að versla þar sem prúttað er um verð fram og til baka. Ég var í engu stuði fyrir gott prútt og þegar einn sölumaðurinn byrjaði með stjarnfræðilega háa tölu horfði á hann í uppgjöf og sagði honum aumingjalega að ég væri ótrúlega þreytt og veik og ég nennti bara ekki þessum leik. Bað hann vinsamlegast bara að að gefa mér upp verð sem hann væri sáttur við og ég væri glöð með að borga. Hann lækkaði verðið um 80% og við brostum bæði.

Í hádeginu hitti ég svo hluta hópsins á veitingastað sem heitir Terrasse des Epices. Þangað þarf ég að fara aftur því lambakjötið, eldað í taginu með sultuðum lauk, vínberjum og öðru gúmmelaði, var ekki af þessum heimi. Á meðan við snæddum ræddum við t.d. um tap og sigra í prúttinu og einn meistarinn í hópnum kenndi okkur hinum sína aðferð. Þegar sölumaður nefnir upphæð svarar þú með því að hrista höfuðið og segja: No, no...give me another price. Og svo endurtekur þú leikinn þar til þeir spyrja þig hvað þú vilt borga fyrir vöruna. Það að leyfa sölumanninum að koma með nokkrar verðhugmyndir gefur þér að lokum betra verð og þegar upp er staðið tekur þetta minni tíma. Með þennan vísdóm í farteski tókumst við aftur á við sölumennina og svei mér þá, ég held að þetta virki!

Með poka og pinkla tók ég loks stefnuna á Riadið. Fékk mér smá kríu áður en ég fór í sturtu og klæddi mig í Marrakech-kjólinn og hitti hópinn uppi á þakbar.

Við fórum öll saman út að borða ásamt einum af leiðsögumanninum sem kom frá Asni til að hitta okkur fyrir heimferðina.

Þegar við vorum mett fór stór hluti hópsins sem átti flug eldsnemma morguns til Íslands með viðkomu í París upp á hótel að klára að pakka og sofa. Við sem flugum í gegnum London kíktum á einn bar áður en við röltum til baka á Riadið.

Góðgæti hugans og lostæti hjartans

Heimferðin gekk vel. Báðar vélar voru á tíma og aksturinn frá Gatwick til Heathrow lét biðina á milli fluga virka styttri. Það var gott að fóðra magann með Shepherd´s pie fyrir seinni fluglegginn og lentum við í rigningu og roki í Keflavík um miðnætti.

Ferðin var í heildina góð, já þrátt fyrir veikindin. Ég hafði áður farið nokkrum sinnum frá Costa del Sol til Tetuan og taldi mig hafa því nokkra hugmynd um hvernig Marokkó væri. En það er svolítið eins og að hafa komið nokkrum sinnum í dagsferð til Keflavíkur og telja sig hafa hugmynd um hvernig Ísland er. Núna hef ég örlítið meiri hugmynd um hvað Marokkó hefur upp á að bjóða, samt á ég mikið eftir. Allar hinar borgirnar eins og Casablanca, Fez og Rabat. Eyðimörkin og strendurnar. En eitt veit ég og það er að Marokkó er sannarlega góðgæti hugans og lostæti hjartans. Landið leikur við bragðlaukana, daðrar við augun og kitlar eyrun. Fullkomin hljómkviða allra skynfæra.

RECENT POSTS:
SEARCH BY TAGS:
No tags yet.
bottom of page