top of page

Brotabrot af Kína

Undirbúningur og brottför

Í lok ágúst 2016 leyfði ég hvatvísinni að ráða þegar ég tók skyndiákvörðun á fimmtudagskvöldi að fara til Kína. Af hverju ekki?

Rúmar þrjár vikur voru í brottför og það fyrsta sem ég athugaði var hversu marga daga það tæki að fá vegabréfsáritun frá sendiráði Kína í Reykjavík (reyndust vera 5 virkir dagar). Því næst gekk ég úr skugga um hvort ég kæmist í þær bólusetningar sem upp á vantaði (leitaði til Ferðaverndar í Kópavogi og fékk tíma viku síðar). Ferðin sem heillaði mig er skipulögð af breskri ferðaskrifstofu sem heitir Exodus, Ultima Thule er með umboðssölu fyrir Exodus á Íslandi. Ferðin heitir Essential China og er tíu daga ferð um austurhluta Kína og er hún farin nokkrum sinnum á ári.

Brottfarardagurinn sem ég valdi var 14. september. Ég flaug út með WOW til London og get sannarlega mælt með því að kaupa XL sæti hjá þeim, fótaplássið hefði auðveldlega dugað einum sheffer hundi að kúra hjá mér til fóta í fluginu.

Ég lenti rúmlega tíu að morgni á Gatwick flugvellinum. Hitabylgja tók á móti mér og sveitt og klístruð með töskuna í eftirdragi tók ég stefnuna á Leicester square. Settist niður utandyra á ítölskum veitingastað og notaði matseðilinn sem blævæng milli þess sem ég pantaði kræsingar upp úr honum.

Eftir mat var stutt viðkoma í Boots til að kaupa sólarvörn, moskítógel og moskítósprey með 50% deet. Sprey á daginn ofan á sólarvörnina og gel á kvöldin (svínvirkaði...fékk þrjú bit, öll á því kvöldi sem ég gleymdi að bera gelið á mig eftir sturtu). Saman röltum við taskan í gegnum St. James Park og yfir í Green Park þar sem við gáfum okkur sólinni á vald, leigðum okkur sólstól fyrir nokkur pund, hvíldum lúin bein og lásum í bók. Um hálf fimm tókum við lestina á Heathrow flugvöllinn og ferðafiðringurinn magnaðist við innritun og biðina eftir því að komast inn í breiðþotu China Air sem flaug með okkur yfir til Asíu.

Beijing

Dagur 1

Fyrsti hluti ferðarinnar var að skoða höfuðborg Kína, Beijing. Leiðsögumaðurinn okkar, William (sem heitir einhverju allt öðru nafni en William), sótti okkur út á flugvöll, rétti okkur vatnsflösku og lét gleraugun síga niður á nefbroddinn, til að sjá almennilega nafnalistann, merkti við okkur og smalaði upp í rútu. Við fengum stutta stund til að fara inn á hótelherbergi, henda okkur í sturtu og teygja úr tánum áður en við hittumst í gestamóttökunni. Hópurinn taldi tólf í heildina, ellefu Breta og einn Íslending. Tvenn hjón, tvær vinkonur og sex ein-ferðalanga (eða hvað er góð þýðing á solo-traveller...sólarferðalangar...) Við röltum á eftir William, sem myndi sóma sér vel í körfuboltaliði heimamanna þar sem hann slagar í tvo metra að hæð, á veitingastað rétt hjá hótelinu. Þar var stuttur fundur um næstu daga, kennsla í notkun matprjóna og svo gómsæt pekingönd snædd. Eftir mat fórum við nokkur í göngu um hótelhverfið og duttum inn á hverfiskrá. Þar fóru þeir hugrökkustu (og í sumum tilvikum laglausustu) upp á svið og sungu karókí.

Dagur 2

Næsti dagur byrjaði snemma, William sótti okkur klukkan sex á rútukálfi. Það tók rúman einn og hálfan tíma að keyra að Kínamúrnum. Þar sem við lögðum svo snemma af stað náðum við að vera komin á Múrinn áður en hann fylltist af fólki. Hægt er að ganga frá bílastæði og upp á Kínamúrinn eða taka kláf. Við völdum felst hver tröppuþrekið - en ég mæli með því núna eftir á að fólk taki kláfinn og nýti frekar orkuna í allt tröppuþrekið sem bíður á Kínamúrnum sjálfum. Það var þreykur í lofti (sambland af þoku og loftmengun af reyk og ryki) þannig að Múrinn myndaðist ekkert sérstaklega vel. Augað nam þó lengra en linsan og svo má alltaf kaupa kort sem atvinnuljósmyndarar hafa smellt af mannvirkinu. Mikilvægara en myndataka var upplifunin að standa á þessum söguríka stað. Ég verð alltaf hálf klökk þegar ég kem til staðar sem ég hef vitað af síðan ég man eftir mér, séð í sögubókum og á myndum. Það var því hálf súrrealískt að fara í sleðaferð niður hæðina (hægt að smella á myndina og horfa á myndband af Youtube)...kannski ekki eitthvað sem ég las um í mannkynssögu en ótrúlegt stuð.

Það stóð heldur ekkert um það í sögubókum að við Kínamúrinn væru tveir veitingastaðir sem hægt væri að fá sér hádegismat á. Annar þeirra var Subway. Aftur var það svolítið súrrealist að vera í Kína...við Kínamúrinn...og japla á Subway samloku.

Um kvöldið fórum við nokkur í leikhús að sjá sýningu sem var sambland af loftfimleikum og áhættuatriðum. Sérlega áhugaverð sýning þar sem ég greip ítrekað andann á lofti.

Dagur 3

Þriðja daginn skoðuðum við borgina. Einkunnarorð dagsins voru "Follow William", og í mannhafinu var dásamlegt hvað William er hávaxinn. Við nýttum almenningssamgöngur, fórum í strætó og neðanjarðarlestar á milli staða og minnti ferðin því minna á túristaleiðangur. Meira eins og hópur fólks að flækjast um borgina með heimamanni.

Við byrjuðum á því að skoða Himnahofið og garðinn sem umlykur það. Í garðinum var fjöldi manns að stunda hinar og þessar íþróttir. Sumir dönsuðu, aðrir gerðu tai chi æfingar, einhverjir spiluðu badminton á meðan sumir spörkuðu á milli sín hokkibolta með fjöðrum sem stóðu upp úr einni hliðinni. William hvatti okkur að taka þátt og þegar við reyndum (án þokkalegs árangurs) að elta heimamenn eftir í dansi eða tai chi flissuðu þeir og gerðu ríkulega grín að okkur. Mikil gleði og forvitni einkennir þá heimamenn sem við hittum. Það þótti t.d. ekkert óeðlilegt að Kínverjar bæðu um leyfi að taka sjálfu af sér með okkur, snerta húð og strjúka yfir hár okkar. Í neðanjarðarlestunum lærði ég líka fljótt að pláss er munaðar"vara" sem ég mun ekki taka sem sjálfsögðum hlut aftur. Mér fannst ekki auðvelt að fá ókunnuga alveg inn í áruna til mín...finna andardrátt einhvers á leið í vinnu alveg upp við kinnbeinið eða þurfa að loka munninum extra vel til að fá ekki hárlubba upp í mig. Persónulegt rými er sama sem ekkert.

Himnahofið var dásamlega fallegt og William útskýrði hvernig Kínverjar trúa á frumefnin og hvernig litirnir í byggingunum endurspegla þá trú. Hann sagði okkur líka frá samspili himins og jarðar og hvernig byggingar taka mið að því - hringur er fyrir himininn og ferningur fyrir jörð. Himnahofið er t.d. byggt í hring en torgið utan um það er ferhyrnt. Eins má sjá þetta á matprjónum, þá er endirinn sem þú stingur upp í þig hringlaga en efst á prjónunum er ferningur. Það er vel þess virði að skoða hofið en þó fannst mér skemmtilegra að ganga um garðinn og fylgjast með heimamönnum við leik. Öll erum við jú líkast til forvitin hvert um annað.

Við gengum yfir að bergmálsmúrnum og á móti honum var steinn sem keisarinn á að hafa staðið uppi á þegar hann ávarpaði lýðinn. William sagði okkur að talan 9 væri lukkutala í Kína og í kringum steininn voru 9 hellur. Utan um þær bættust við 9 hellur og utan um þær 18 hellur bættust við 9 hellur o.s.frv. Þannig að í kringum steininn var lagður hringur og honum lokað af með ferhyrntri "stein-girðingu".

Eftir góðan tíma í garðinum eltum við William í neðanjarðarlestina og fórum á veitingastað sem ekkert okkar hefði valið að fara inn á...svona miðað við hvernig hann leit út að utan. En líkt og við lærðum fljótt - þá má treysta William að velja góðan mat. Á staðnum smökkuðum við dumplings sem er nokkurs konar hveitibolla/soðkaka með mismunandi fyllingu. Við dýfðum dumblings í sojasósu og borðuðum með bestu lyst. Áður en við héldum skoðunarferðinni áfram hvatti William okkur til að nota salernin. Á hótelunum voru svokölluð vestræn klósett. En þar sem vestrænir ferðamenn eru ekki í meirihluta (eins og á þessum veitingastað) þá urðum við að mastera hnébeygjuna. Það vandist ágætlega í ferðinni að létta af sér á hækjum sér - en ég get ekki sagt að ég hafi vanist því að ekki voru alltaf einstaklingsbásar í boði.

Eftir mat tókum við neðanjarðarlestina yfir á Tiananmen square (Torg hins himneska friðar). Þar sagði William okkur að torgið væri það stærsta að flatarmáli í heiminum og svo benti hann á byggingarnar og sagði okkur hvað væri í hverri. Hann talaði hins vegar ekkert um uppreisn stúdenta eða hvernig henni lauk. Við fórum undir breiðgötuna sem skilur að torgið og Forboðnu borgina.

Forboðna borgin er gullfalleg. Hver glæsihöllin á fætur annarri sem myndar má segja lítið þorp innan Beijing. Keisarafjölskyldan bjó í Forboðnu borginni ásamt hermönnum og ráðgjöfum. Á meðan við gengum um, skoðuðum mannvirkin og önduðum inn söguna reyndi William að kenna okkur að telja upp á tíu á kínversku. Miðað við hvað heimamenn hlógu að okkur þá höfum við ekki verið nálægt því að ná hljóðfallinu rétt.

Við fengum góðan tíma til að skoða Forboðnu borgina. Að lokum tókum við neðanjarðarlestina til baka upp á hótel. Sóttum töskurnar, keyptum okkur snakk og drykki til að hafa í næturlestinni og biðum eftir rútunni sem flutti okkur á lestarstöðina.

Það einfaldaði flest á lestarstöðinni að hafa William til að elta. Allar merkingar voru á kínversku og því ómögulegt fyrir okkur sem vissum ekki hvernig Xian er skrifað á kínversku að finna réttan brautarpall. Við fórum í gegnum öryggisleit og stukkum öll inn á einhvern skyndibitastað áður en við fórum um borð í lestina. Við áttum bókuð þrjá fjögurra manna svefnklefa og deildi ég klefa með þremur konum. Það voru engar sturtur um borð í lestinni en það gladdi okkur kvenkynið gífurlega að sjá að það var vestrænt klósett í vagninum okkar. Óttinn við að þurfa að halda jafnvægi í djúpri hnébeygju á meðan lestin hristist eftir teinunum hvarf. Þegar lestin skrölti af stað vorum við fjórar í mínum klefa allar komnar í náttföt og okkur leið eins og í skáldsögu eftir Edith Blyton - sem breyttist reyndar í stemmingu úr skáldsögu eftir Agötu Cristie svona þegar leið á nóttina. Þegar við sem náðum að sofa vöknuðum um morguninn gengu þernur á milli klefa og seldu kaffi og te. Við klæddum okkur í föt og höfðum farangurinn til.

Xian

Dagur 4

Þegar við stigum út úr lestinni vorum við komin til Xian, sem einu sinni var höfuðborg Kína. Hótelið var mjög vel staðsett niðri í gamla bæjarhlutanum sem er staðsettur innan borgarmúranna. Í miðju gamla bæjarins er klukkuturninn Bell tower og var hótelið okkar rétt hjá honum. Við byrjuðum á því að fara inn á hótel og beint í morgunmat. Síðan fengum við tvær klukkustundir til að fara í sturtu og koma okkur fyrir. Við hittum William í móttökunni um hádegið og röltum að Drum tower, fórum í gegnum markaðinn og inn í mosku frá árinu 752. Við spásseruðum um garðinn hjá moskunni og fylgdumst með karlmönnum taka á móti ættingjum og vinum. Konur sátu settlega til hliðar og uppi á borði lá lík með dulu yfir sér. Jarðarför var að hefjast og urðum við að yfirgefa moskuna áður en hún hófst, eðlilega.

Við röltum aftur í gegnum markaðinn, hver á sínum hraða og skipist hópurinn niður í nokkra minni hópa. Á markaðinum var m.a. hægt að kaupa slæður, matprjóna, minjagripi ýmiskonar og margt fleira. Síðan lá leiðin í gegnum götu þar sem djúpsteiktir krabbar, krossfiskar og sæhestar voru á priki. Við vorum fjögur sem skelltum okkur inn á einn veitingastað og fengum okkur í gogginn áður en við röltum meira um gamla bæinn.

Aftur hittum við William klukkan fimm og þá var farið að rigna. Bjartsýnispésinn ég var hvorki með regnhlíf né regnjakka en leigði mér bara regnhlíf í móttöku hótelsins. Saman gengum við að suðurhliði borgarmúrsins og fórum upp á hann. Þar sem steinninn var mjög sleipur ákváðum við að sleppa því að leigja hjól og hjóla hringinn í kringum múrinn. Fórum því bara hluta að honum, skoðuðum útsýnið í gegnum regnið og tókum myndir af mistrinu.

Áður en farið var aftur upp á hótel fórum við á veitingastað og enn og aftur fengum við dýrindis kræsingar. Ég er í eðli mínu frekar matvönd og var alveg undir það búin að lifa á hrísgrjónum með sojasósu ef út í það færi. En maturinn í ferðinni átti það sameiginlegt að vera ákaflega bragðgóður og gengu allir pakksaddir frá borðum (og nei ég smakkaði ekki svona djúpsteiktan krabba!).

Dagur 5

Eftir lýðræðislegar kosningar var ákveðið að leggja af stað hálf átta daginn eftir til að vera á undan mannhafinu sem ber Terracotta leirherinn augum á hverjum degi. Við fengum liðstyrk þennan dag, þar sem heimaleiðsögumaður kom með okkur í rútuna og sagði okkur frá sögu Xian. Hún sagði okkur frá því þegar leirherinn fannst og að nálægt Terracotta hernum væri annað grafhýsi sem hafði fundist síðar. Við ákváðum að ná að skoða það líka fyrir flugið. Líkt og með Kínamúrinn þá hlakkaði ég til að sjá leirherinn enda búin að vita af honum í áraraðir. Við fengum góðan tíma til að skoða öll 3 húsin sem hýsa uppgröftinn.

Við keyrðum síðan í rúman hálftíma og fórum að skoða hitt grafhýsið, sem var stútfullt af leirstyttum af fólki, búfénaði og ýmsum áhöldum.

Flugferðin til Guilin tók um tvo tíma og þegar við lentum var klukkan um níu að kvöldi. Við fórum beint upp í litla rútu og keyrðum í rökkrinu til Yangshuo þar sem við gistum næstu þrjár nætur. Hólarnir risu upp úr jörðinni og minntu á langan sjávardreka sem hlykkjast upp úr hafinu. Kvöldinu var varið á veitingastað og smá göngutúr um bæinn.

Yangshuo

Næstu tveir dagar voru frjálsir dagar. Af okkur tólf vorum við tíu sem vildum gera sem allra mest, tveir sem vildu ná upp smá hvíld eftir erilsama daga á undan.

Dagur 6

Fyrri daginn sváfum við út...alveg til klukkan átta. Röltum saman inn í bæ á staðinn sem framreiddi morgunmat. Þrátt fyrir að bærinn Yagnshuo minnir helst á Magaluf á kvöldin (með sínum neonljósum og djammandi túristum) þá var hann einstakur að degi til. Miðkjarninn var lítill og eitthvað um verslanir, veitingastaði og bari. Eftir morgunmat skoðuðum við bæinn og pössuðum okkur á því að verða ekki undir yfirbyggðum vespum. Sama hvernig bíl við sáum, fjölskyldubíll eða vöruflutningabíll, voru þeir allir í grunninn vespur eða litlar skellinöðrur. Fólk gekk líka um með þríhyrnda stráhatta og báru ýmislegt á prikum líkt og klippt út úr tímariti fyrir hundrað árum.

Ég ákvað að fara með nokkrum úr hópnum í fjallaferð. Upp úr hádegi sótti heimaleiðsögumaður okkur og saman keyrðum við upp í fjöllin. Við byrjuðum á því að fara á te-akur og lærðum að tína telauf í körfur. Að sjálfsögðu fengum við þríhyrnda hatta til að líta út fyrir að vera meira alvöru. Síðan skiluðum við telaufinu inn í verksmiðju og fengum að sjá hvernig laufin eru verkuð. Að lokum fórum við í tesmökkun og lærðum réttu mannasiðina í teboði.

Þá lá leiðin áfram í gegnum dásamlegu kalkhólana. Við gengum upp á einn hólinn og fengum frá honum arnarsýn yfir landslagið. Ég hélt ekki að það væri hægt að falla gjörsamlega fyrir fjöllum, en fyrir þessum hólum féll ég aftur og aftur...og svo enn einu sinni. Áin Li sem liðast í gegnum hólana var áfangastaður næsta dags. Meira um það á eftir.

Á bakaleiðinni námum við staðar í einu gömlu steinaþorpi. Öll húsin í þorpinu voru hlaðin steinum, heimildum ber víst ekki saman um hvenær húsin voru hlaðin en það var á tímum keisaranna (bara spurning hvaða keisara...hmmm).

Það eru ekki margir íbúar enn í þessum gamla hluta þorpsins, unga fólkið er t.d. meira og minna flutt í nýja hluta þorpsins eða inn til borgarinnar. Kannski ekki að undra þar sem ekkert rennandi vatn er í gamla hlutanum og við gengum fram hjá kamri sem bæjarbúa nota. Við sáum ófáa bera vatnsfötur heim til sín sem settar voru á hvorn sinn endann á priki og síðan yfir axlirnar. Við fengum að fara inn í tvö hús. Þau voru nákvæmlega eins uppbyggð. Í miðju hússins var íverustaður undir beru lofti, til hliðar var eldstæði undir beru lofti og innar voru 2 svefnherbergi og geymsla. Hægt var að ganga inn í húsið að framan og að aftan. Á myndinni má sjá húsfreyjuna, hokna í baki, undirbúa matinn. Inn og út úr húsunum vöppuðu hænur og ein kýr ætlaði að kíkja í heimsókn en hætti snarlega við þegar hún sá fjöldann af forvitnum ferðamönnum þarna inni.

Það var ekki mikið talað í rútunni á leiðinni frá steinaþorpinu. Hvert og eitt okkar, sem öll lifum í vellystingum, vorum hugsi á bakaleiðinni. Í bjartsýni spurðum við leiðsögumanninn hvort þetta væri ekki bara safn, og íbúarnir sem við sáum bara starfsfólk sem fengi svo að fara heim til sín að loknum vinnudegi. En nei, ekki vildi hann meina það. Hann sagði þó að fólkið sem býr í þorpinu núna sé að öllum líkindum síðustu íbúar þorpsins. Eftir 15-20 ár verður það sennilega eyðiþorp.

Í þögn hristumst við eftir veginum, sem stundum var ekki einu sinni vegur þar sem verið var að leggja veginn og bílstjórinn okkar keyrði oft á tíðum við hliðina á hinum ókláraða vegi. Við hossuðumst fram hjá húsum í byggingu og ég verð að viðurkenna að það færi um mig ef ég þyrfti að príla upp bambus-stillansana sem reistir voru upp við húsin. Þrátt fyrir að hafa notið hvers einasta dags þá var þessi fjallaferð toppurinn - já hún toppaði Kínamúrinn og leirherinn!

Þegar við komum til baka til Yangshuo hentumst í sturtu (enn hugsandi um fólkið í steinaþorpinu) og mökuðum á okkur mosquítógeli og fórum í síðerma boli og síðbuxur. Það var enginn tími til að fara að fá sér að borða, heldur tókum við rútu niður að ánni Li í leikhús við árbakkann. Þar horfðum við á sýningu á meðan mosquítóflugurnar reyndu að komast í gegnum vörnina. Sýningin var stórbrotin. Sá sem sá um opnunaratriði Ólympíuleikanna í Beijing 2008 var listrænn stjórnandi þessarar sýningar. Í myndbandi (sem ég fann á Youtube) geta áhugasamir séð nokkur brot úr sýningunni. Eins og sjá má þá er áin sjálft sviðið og leikararnir fjölmargir (flestir heimamenn mæta á hverju kvöldi til að leika sitt hlutverk og dansarar sýningarinnar eru flestir nemendur í listnámi í Guilin). Upplýstir kalkhólarnir í bakgrunni sköpuðu magnaða stemningu.

Eftir sýninguna skiptist hópurinn í tvennt eftir því hvað hver vildi borða. Síðan var kíkt á einn bar fyrir háttatíma.

Dagur 7

Seinni dagurinn í Yangshuo byrjaði líkt og sá fyrri, við fórum á Lucy´s og fengum okkur morgunmat. Rúmlega níu sótti rúta okkur sem kusum að fara í siglingu niður ána Li. Báturinn var á tveimur hæðum og fyrstu tuttugu mínútur urðu allir að vera inni á neðri hæðinni, þar var heitt og mikið skvaldur og siglingin ekki jafn rómantísk og róleg og við höfðum gert væntingar til. Kona sigldi upp að bátnum á bambusfleka með tvo vígalega veiðifugla. Fuglarnir eru nýttir til þess að veiða fisk úr ánni og máttu þeir sem vildu gauka að henni pening fyrir að fá að taka myndir af sér með fuglunum. Síðan var siglingunni haldið áfram og enn máttum við ekki fara upp á þakið/útsýnispallinn. Þegar sala á drykkjum og djúpsteiktu sjávarfangi var lokið var allt í einu í lagi "öryggisins vegna" að fara upp á þak. Þá breyttist siglingin úr því að vera alls ekkert sérstök í hina miklu skemmtun. Síðustu tvo daga hafði ég þróað með mér fjallablæti sem aldeilis fékk að grassera á ánni. Kalkhólarnir föðmuðu ána og það var sama hvert litið var, náttúrufegurðin var gífurleg. Þessi fjöll - þau verða hreinlega ekki leiðinleg.

Við komum til baka á hótelið rétt upp úr hádegi og röltum við nokkrar yfir á Lucy´s og fengum okkur hádegismat, smökkuðum kokteila og súkkulaðiköku. Síðan gerði hver það sem hann vildi. Ég rölti um bæinn, skrifaði í dagbókina og sötraði rauðvín. Leit inn í hippabúðir og naut þess að vera til.

Klukkan sjö hittist hópurinn niðri í móttöku og eltum við William á enn einn veitingastað sem seldi ekkert nema kræsingar. Eftir mat kíktum við á næturlífið. Ekki verður skrifað meira um það hér...

Dagur 8

Í þriðja og síðasta sinn vöknuðum við í Yangshuo eftir lítinn nætursvefn, rötum yfir á Lucy´s fyrir morgunmat og svo upp í rútu sem flutti okkur á lestarstöðina í Guilin. Þaðan tókum við hraðlest til Hong Kong. Við sátum öll saman í vagni númer átta og vorum við fyrst til að setjast í sætin. Síðan komu heimamenn og fylltu sætin allt í kringum okkur, og gott betur því stundum sátu tveir til þrír í sama sæti. Börn grenjuðu, foreldrar öskruðu á þau, sem varð til þess að börnin öskruðu líka...sem hækkaði styrkinn í öskrum foreldranna. Einn Bretinn hitti höfuðið á naglann þegar hann tuldraði eftir að hafa rölt yfir í matarvagninn: "Ég held að vagn 8 sé hlið að helvítinu og í dag er það opið." Það var skjár í vagninum sem sýndi hraðamæli og fór lestin hraðast á 307 km/klst. Eftir tveggja tíma ferðalag í lestinni fórum við yfir landamærin til Hong Kong og tókum strætó og síðan leigubíl til að komast á hótelið okkar.

Flest þurftum við að skipta kínversku júönunum í Hong Kong dollara og fá okkur léttan snarl. Klukkan sjö hittumst við í móttökunni og tókum saman strætó niður að sjó og horfðum á lazersýningu sem var...tja...áhugaverð. Kvöldið var frjálst og við vorum fimm sem fórum saman út að borða og röltum um þar til þreytan skipaði okkur í ból.

Dagur 9

Dagurinn byrjaði á því að taka ferju yfir á Hong Kong eyjuna og sporvagn upp á útsýnispallinn á Victoria Peak. Útsýnið var stórkostlegt og eftir góðan tíma þar var dagurinn frjáls. Við vorum tíu af tólf sem vildum nýta daginn til að sjá Big Buddah. William sýndi okkur hvernig við kæmumst þangað í neðanjarðarlestinni og örkuðum við af stað. Neðanjarðarlestirnar eru svo hreinar að ég hef aldrei séð annað eins í neinni borg. Frá lestinni tókum við kláf upp að svæðinu sem Stóri Búdda beið okkar. Við fengum okkur hádegismat á veitingastað við Búddann og nutum þess að ganga um svæðið og upp tröppurnar sem lágu að Búdda. Þetta Búddalíkneski er með þeim stærstu í heiminum. Bara eyrun á honum eru 7 metrar að lengd! Síðan fórum við aftur niður í bæ með kláfinum og verð ég að segja að ferðin var ekki fyrir lofthrædda! Dagurinn hreinlega flaug og allt í einu hlupum við í kapp við tímann upp á hótel, í sturtu og niður í móttöku. Nú var komið að síðustu kvöldmáltíðinni. Það var mikið hlegið við borðið um leið og við gæddum okkur á kræsingum kvöldsins og rifjuðum upp fyndnar uppákomur frá síðustu dögum. Við vorum flest með bókað hópflugið heim og þurftum því að rífa okkur á fætur klukkan fimm. Ef ég hefði breytt einhverju í ferðinni svona eftir á, þá hefði ég keypt sjálf flugið og verið komin til Beijing degi fyrr og verið 2-3 nætur í Hong Kong í lok ferðar.

Dagur 10

Lokadagur ferðarinnar var í raun bara ferðadagur. Við vorum sótt um klukkan fimm á hótelið, fórum í flug frá Hong Kong til Beijing, biðum á flugvellinum í tvo tíma og fórum svo áfram frá Beiing til London. Flugleggurinn frá Beijing til London tók rúma níu klukkutíma og eftir kveðjustundir á Heathrow flugvelli skrölti ég með lestinni inn í miðborg Lundúna. Þegar ég var búin að tékka mig inn var ég búin að vera á ferðalagi í 23 tíma - og steinsofnaði í öllum fötunum. Næstu tvo daga naut ég þess að ganga um götur Lundúna, sem er ein af mínum uppáhalds borgum áður en ég flaug heim til Íslands. Sátt með mín fyrstu kynni af Kína. Mín fyrstu, og vonandi ekki einu, kynni af Asíu.

RECENT POSTS:
SEARCH BY TAGS:
No tags yet.
bottom of page