Hvítu þorpin í Andalúsíu

Þeir sem mig þekkja vita að það blundar í mér senjoríta og lífið við Miðjarðarhafið fer afskaplega vel í mig. Ég elska tónlistina, hvort sem um ræðir tregafulla flamenkósöngva eða dillandi salsatóna. Mér finnst nautasteikur og gómsætt úrval tapasrétta algjört sælgæti og svo fúlsa ég ekki við því að skola herlegheitunum niður með ískaldri sangríu. Sólin og spænski fiðringurinn kítlar einhverjar taugar sem Ísland nær ekki til. Ekki misskilja mig, mér þykir afskaplega gott að búa á Íslandi innan um fjölskyldu og vini. Sál mín togast á milli þessara tveggja landa, sem ég kalla löndin mín. Þegar ég er á Spáni langar mig jafn mikið í malt og pylsu (ekkert endilega saman) eins og mig langar í allt það sem spænskt er þegar ég er á Íslandi.

Ég fór fyrst til Andalúsíu fimm ára. Þá á sólarströnd með mömmu, pabba og systur minni. Það var fyrsta ferðin en alls ekki sú síðasta. Þegar ég tel saman þær vikur og mánuði sem ég hef átt heima á Spáni þá er það ansi stór hluti ævinnar, a.m.k. stór hluti af fullorðinsárunum. Og alltaf togar Andalúsía í mig sérstaklega. Kannski því að ég bjó hjá spænskri fjölskyldu í rúma fjóra mánuði sem dreifðust yfir tvö sumar, þá stelputrippi í spænskunámi í úthverfi Malaga. Kannski væri ég gallharður Baski eða sæi ekkert nema höfuðborgina ef ég hefði valið skóla í öðrum landshluta. En Andalúsía varð fyrir valinu og því slær hjartað mitt hraðast fyrir því landsvæði á Spáni.

Hvítu þorpin í Andalúsíu eru vel þess virði að heimsækja. Ég ætla ekki að telja þau öll upp hérna...en nokkur.

Snapchat-463539824

Ronda

Líkast til þekkið þið Ronda. Hafið jafnvel farið í dagsferð upp til fjallaþorpsins frá sólarströndum Costa del Sol. Eða lesið um að þorpið sé vagga nútíma nautaatsins. Vitið að Hemmingway hreifst að þorpinu, heimsótti það oft og skrifaði um aftökur falangista á brúnni yfir El Tajo Gorge gilið. Gilið klýfur bæinn í tvennt. Nautahringurinn er í yngri hluta bæjarins og eldri hlutinn, oft kallaður Márahlutinn, þá hinum megin við brúna. Í nýja bænum er aðal verslunargatan (Carrera Espinel) og skemmtilegt torg til að snarla eitthvað á (Plaza del Socorro). Í gamla bænum er dómkirkjan og margar þröngar og skemmtilegar götur til að rölta um. Arabísk böð eru að finna í bænum sem og gamlan borgarmúr sem hægt er að ganga með fram.

Grazalema

Þorpið er staðsett í fjallgarði í Grazalema þjóðgarðinum. Hæsti tindur í fjallgarðinum er í ca. 1655 metra hæð yfir sjávarmáli. Í fjallgarðinum er að finna fjölmarga kalksteinshella ásamt því sem jurtaríkið og dýralíf er fjölbreytt. Til dæmis sveima egypskir gammar, sem eru í bráðri útrýmingarhættu, ofarlega í fjöllunum.

Grazalema þorpið er í 800 metra hæð. Í kringum bæinn eru kalksteinsklettar og hefur svæðið þann vafamikla heiður að eiga regnmet Spánar. Kalksteinsklettarnir ná upp í 1500 metra hæð í kringum Grazalema bæinn og safnast regnskýin í klettunum. En rigningin hjálpar heimamönnum að rækta fallegan gróður. Til dæmis vex finur í hæðunum rétt hjá Grazalema.

Húsin í hvítu þorpunum eru hvítkölkuð og halda kalkveggirnir hitanum úti. Húsin eru þannig hönnuð með loftkælingu í huga, ekki bara að þau séu öll í stíl. Heimamenn vita að þorpið er sótt af ferðamönnum sem eru að ganga í þjóðgarðinum og leggja þeir sig fram um að hafa þorpið hreint og utan á flestum húsunum hanga litríkar blómakörfur. Á aðaltorginu eru veitingastaðir og barir og kirkja frá 18. öld. Kirkjan er tileinkuð gyðjunni La Aurora sem á íslensku útleggst sem dagrenning...eða morgunroði. Á torginu er líka að finna ráðhúsið og sóknarkirkju.

18945323_1849588815368637_132757267_n

Zahara de la Sierra

Þorpið er í 500 metra hæð yfir sjávarmáli. Í kringum 1920-1970 bjuggu helmingi fleiri í bænum en á sjöunda áratugnum fækkaði íbúum úr tæplega 3000 manns í rúmlega 1800 manns sökum atvinnuleysis á svæðinu. Íbúafjöldinn hefur staðið í stað núna síðan ca. 1990.

Þorpið stendur uppi í fjalli yfir dal þar sem turkísblátt lón kúrir. Þetta lón er manngert og er lokað af með stíflu. Hún er tiltölulega ný og hefur ákveðið aðdráttarafl þar sem hún býður upp á ýmsa afþreyingu sem ekki var hægt að bjóða upp á áður – t.d. kajakróður.

Aðal kirkja bæjarins var byggð 1407 og var hún byggð ofan á rústum mosku. Eins tróna kastalarústir yfir þorpinu.

Genalguaci

Það sem gerir Genalguacil sérstaklega sjarmerandi er að fyrstu tvær vikurnar í ágúst á hverju ári er listamannahátíð haldin í þorpinu. Þau listaverk sem vinna til verðlauna á hátíðinni fá varanlegan stað í þorpinu. Að ganga í gegnum þorpið er því eins og að rölta í gegnum listasafn. Heklað utan um trén, myndverk á húsveggjum, skúlptúrar víða um bæinn o.s.frv.

Setenil de las Bodegas

Að lokum verður að minnast á þorpið Setenil de las Bodegas sem er staðsett ca. 20 km norður af Ronda. Þetta þorp varð til úr samansafni hella sem fólk bjó í. Hellarnir voru hoggnir út inn í klettinn og þegar hvítu húsin voru byggð, oft ekki mikið meira en framhlið framan á hellismunninn, var líkt og þau liggi undir klettunum.


RECENT POSTS:
SEARCH BY TAGS:
No tags yet.