Að ferðalokum finn ég þig...


Þegar riðlakeppni EM 2016 byrjaði með leiknum á móti Portúgal var mín von að við yrðum ekki niðurlægð á vellinum. Strákarnir okkar höfðu jú staðið sig svo vel í undankeppninni að þeir áttu einfaldlega ekki annað skilið en að koma vel út úr EM, a.m.k. ekki að tapa of stórt.

Á 90 mínútum þögguðu strákarnir niður í svona meðalmennskuvæli með því að ganga stoltir af velli með fyrsta ótapaða leikinn í farteskinu.

Annar leikurinn undirstrikaði það að íslensku strákarnir væru ekki bara í Frakklandi til að smakka froskalappir.

Þriðji leikurinn fékk mestu antisportistana til að ærast af gleði og faðma ókunnuga á Ingólfstorgi, eða í einhverjum götum nálægt torginu sem fyrir löngu var orðið allt of lítið til að rúma mannfjöldann.

Ég horfði á riðlakeppnina í úrvals félagsskap. En þrátt fyrir það fannst mér ég klárlega vera að horfa á leikina í vitlausu landi. Við sem höfum nánast alist upp í áhorfendastúkum vitum að það er tvennt ólíkt að vera á vellinum eða horfa á leik á sjónvarpsskjá - þó svo að útsendingin sé í HD. Síðan má líka segja að fótboltaheilsan hafi verið í hættu þarna í byrjun sumars, enda ekki tekið út með sældinni að vera KRingur í fyrstu umferðum Íslandsmótsins 2016!

Enn var ég þó á Íslandi þegar flautað var til leiks í Nice, sextán liða úrslit á móti Englendingum. Ég ákvað með sjálfri mér að ef svo færi að strákarnir okkar næðu að þvinga Englendinga í annað Brexit þá færi ég út í átta liða úrslit. Án frekari orðalenginga þá vitum við öll hvernig sá leikur fór (ef þú veist það ekki..þá eru dyrnar þarna...). Gjörsamlega andvaka af útþrá gengu hlutirnir hratt fyrir sig. Enda frábærar ástæður til að skella sér út: 1) Verða vitni að stórviðburði í íslenskri íþróttasögu og 2) heimsækja vinkonu mína sem búsett er í París.

Fyrst á dagskrá var að bíða í rafrænni biðröð til að kaupa miða hjá FIFA. Það gekk ekki upp.

Þá var að kaupa sér flug - en vélarnar voru allar fullar.

Nú voru góð ráð dýr. Spurning að fara að blása upp vindsængina og treysta á miðakaup fyrir utan leikvanginn. En þá kom himnasending - full vél sett í sölu og stelpan fékk sæti. Út á laugardegi, leikur á sunnudegi og heim á mánudegi. Gæti ekki klikkað.

Með flugmiða að vopni hélt leitin að miða á stórleikinn áfram. Eins vantaði mig treyju. Í óþolandi bjartsýniskasti kom ég nokkrum sinnum við hjá Jóa útherja og Músík og sport í þeirri von um að allt í einu fyndist ein treyja í minni stærð í búðinni þeirra. Daginn fyrir flug var ég enn treyju- og miðalaus og sá fram á að ég yrði svartur steinn í fallega bláa hafinu uppi í stúku...nú eða bara fyrir utan leikvang á fan zone.

En það sem hvatvísir farfuglar hafa lært um ævina er að hlutirnir reddast. Ég fékk lánaða treyju á ferðadegi sem hafði nú þegar farið á 8 liða úrslit á EM í íslenskri knattspyrnusögu, þá að fylgja eftir valkyrjunum okkar. Og mér áskotnaðist miði í 15. röð frá grasinu, sem sannaði að það eru englar á meðal okkar. Treyja í tösku og keyrt út á flugvöll. Innritun og öryggisleit...styttist í stuðið.

Þar sem ég stóð með pylsu í hönd að kreista tómatsósu yfir, fór brunabjallan í Leifsstöð í gang. Eins og sönnum Íslending sæmir kláraði ég í rólegheitunum að skreyta pylsuna. Það var heldur ekki eins og fólk væri eitthvað að flýta sér út. Tja, nema kannski gaurinn sem vann á kassanum, hann var farinn þegar ég ætlaði að borga. Ég sneri mér að starfsmanni og spurði hvar næsti útgangur var, hann horfði hissa á mig (eins og viðvörunarkerfið hafi ekki borist honum til eyrna) og sagðist ekki vita það, hann væri nú bara sumarstarfsmaður. Greyið, það er nú ekki hægt að ætlast til að þeir viti eitthvað. En mannhafið var komið á skrið, eða svona sniglagang til að það slettist nú ekki upp úr bjórglösunum (sem auðvitað voru borin með út). Nú þetta var síðan ekki-eldur og við fengum að fara aftur í gegnum öryggisleitina og náðum fyrri hálfleik í leik Þjóðverja og Ítala þar sem einhver seinkun varð á. Röltum svo í rólegheitunum út í flugvél hjá hollensku flugfélagi með hressum flugstjóra.

Flugið var stutt...eiginlega ískyggilega stutt. Enda kom það á daginn að við lentum ekki í París. Við lentum ekki einu sinni í Frakklandi. Eitthvað voru Hollendingar að fá hefndarþorstanum svalað (þar sem Ísland tók sætið "þeirra" á EM). Þegar flugstjórar eru of miklir gleðipinnar í hljóðkerfinu ætti það að vera vísbending um að við séum stödd í einhverjum einkabrandara. En það þýddi ekkert að hengja haus, úti biðu rútur sem ferjuðu okkur frá Amsterdam til Parísar. Jákvæða var að við vorum komin á meginlandið og enn góður tími í leik. Klukkan var rúmlega tvö að nóttu og það er nú alveg hægt að ná smá lúr í rútu. Nema þá tóku vel vökvaðir menn sig til og sungu með drafandi röddu og mikilli innlifun "því ég er komin heiiiiiim" við undirleik einhverra sem trúðu því hreinlega ekki að þetta væri í alvöru staðan. "Og má bara flytja mann til lands sem maður ætlaði ekkert til..." og fleiri svona dramatískar pælingar um það hvort hægt væri að kæra allt og alla fyrir mannrán. Ég fann jákvæða fólkið í rútunni og sat innan um það.

Eftir pissustopp í Belgíu lognuðust flestir út af og náðu pínu kríu. Í svefnrofum komumst við yfir landamærin til Frakklands og rúlluðum í rólegheitunum í átt til höfuðborgarinnar. Um hálf tíu að morgni renndi rútan í hlað við lestarstöð og þá var komið að þriðja farartæki ferðarinnar. Plane, train and automobile fullkomnað.

Það var góð tilfinning að komast heim til vinkonu minnar og í sturtu. Á meðan hún bakaði pönnsur ofan í þreyttan farfuglinn náði ég þriggja kortera orkublundi. Ég var svo lukkuleg að engillinn sem reddaði miðanum sá einnig um að sækja hann fyrir mig þannig að dagurinn var laus við allt stress. Í líkamanum kitlaði fyrirtuðruspenna sem magnaðist með hverri mínútu. Með pönnsur í malla tókum við vinkonurnar lestina aftur inn í miðborg. Röltum um hverfi Rauðu myllunnar og hittum mann og annan. Líka ótrúlega margar konur. Hittum englana sem redduðu mér miðanum og hátt uppi sökum svefngalsa og tilhlökkunar liðu varla fimm mínútur án þess að ég kíkti í töskuna til að athuga hvort ég hefði ekki örugglega sett miðann ofan í gott hólf. Þó svo að Kalli hafi verið kátur með sinn gullmiða í súkkulaðiverksmiðjuna, þá átti hann ekkert í mína einlægu miðagleði.

Sannkölluð karnival stemming ríkti á torginu hjá Rauðu myllunni. Þegar lítil túristalest druslaðist upp hæðina voru örfáir ferðamenn sem mynduðu mylluna. Hinir nýttu tækifærið og mynduðu bláklædda, samheldna stuðningsmenn sem huh-uðu og trölluðu af lífs og sálar kröftum.

Þá var komið að því að fara út á völl. Stuðningsmannaormur liðaðist um göturnar, ég knúsaði vinkonuna bless í bili og athugaði aftur hvort miðinn væri ekki örugglega á réttum stað. Þegar við komum inn í lestarstöðina og biðum eftir lestinni potaði einn gulvestaður starfsmaður í mig og spurði: "Þýðir þetta huh eitthvað á Íslensku" (verðið helst að þýða þetta á ensku og lesa í huganum með frönskum hreim). Ég reyndi að svara skynsamlega (með dash af ljóðrænu og þjóðernisstolti) að þetta væri baráttuöskur, eins og eitt hjarta að slá sama taktinn. Honum lá meira á hjarta og spurði: "Af hverju segja allir þetta svona djúpt og karlmannlega?" Og ég, sem hingað til var búin að taka þátt í húh-inu eins og fílefldur bassi í karlakór, hugsaði mig um og svaraði svo að huh-ið myndi bara ekki virka í hátíðni. Hann velti þessu fyrir sér og tók svo nokkur tóndæmi og endaði á því að kinka kolli og sagði: "Já og svo eru Íslenskar konur meira svona víkingar en dömur." Áður en ég náði að móðgast að ráði eða taka afstöðu til þess hvort þetta væri eitthvað til að móðgast yfir, kom lestin. Án þess að taka nokkurt skref færðist ég inn í hana.

Stuttur spölur var frá lestarstöð á leikvang. Hjartað var farið að slá örar og það rigndi örlítið. Íslenski fáninn á hvorri kinn láku niður eins og klipptir út úr hryllingsmynd. Gullmiðinn tryggði mér sæti á besta stað - rétt hjá vellinum og Tólfunni. Það voru fáir mættir þegar ég settist, en stúkan tók fljótt að fyllast. Tólfumenn hituðu upp raddböndin og stýrðu íslenska hafinu eins og þaulæfðir hljómsveitarstjórar. Þegar Ferðalok ómaði í hljóðkerfinu varð ég óskaplega miðaldra, eða þreytan náði taki á mér, eða stoltið yfir þessu liði sem ég var búin að elta yfir hafið til að sjá spila. Hvað svo sem það var, þá stóð ég með kökkinn í hálsinum í 15. röð og gat illa sungið "að ferðalokum finn ég þig..." því þetta var búið að vera strembið ferðalag en svo þess virði. Mér finnst við Íslendingar oft skondin þjóð (og stundum alveg klikkaðslega leiðinleg...eða þið skiljið...) en þarna á Stade de France fannst mér við æðisleg. Við vorum ósigrandi. Við vorum himininn og hafið, jörðin og öll dásemdin sem þar er að finna á milli. Við gátum allt. Meira að segja í hálfleik trúði ég því af öllu hjarta að við ættum eftir að sjá tryllta endurkomu og að víkingarnir okkar myndu fella Frakkana. Það tókst ekki. En fáir sem fylgdust með EM í sumar komust hjá því að falla fyrir þessu liði sem gekk hnarreist út af velli, við lófaklapp stuðningsmanna sem ég er stolt að hafa verið hluti af. Hvílíkir karakterar. Hvílík liðsheild.

Örþreytt og í spennufalli yfirgaf ég leikvanginn. Eftir smá sprell fyrir utan og spjall við stuðningsmenn heimaliðsins, sem klöppuðu fyrir íslensku áhangendunum fyrir utan völlinn (og nei það var ekki kaldhæðnislegt lófatak lúseranna) ákvað ég að stökkva inn í leigubíl. Í fljótu bragði voru þeir vandfundnir. Hvað gerir kona í neyð? Jú, leitar til lögreglunnar. Þarna stóðu þrír fullvopnaðir löggæslumenn sem ég ákvað að leita til. Þeir fundu vin sinn sem talaði smá ensku eftir dvöl í Bandaríkjunum. Hann var sko meira en til í að aðstoða þessa litlu stelpukonu sem var alein á vellinum enn með sigurblik í augum. Saman leituðum við að leigubíl, ég og vopnaði hermaðurinn. Við gengum fram hjá sönglandi Íslendingum í gleðivímu. Á sama tíma og gömul skólasystir mín sá mig og kallaði til mín: "Ása, ertu í miklum vandræðum?" spurði hermaðurinn hissa: "Vita Íslendingar ekki að þeir töpuðu leiknum?" Honum fannst landar mínir furðu kátir miðað við að vera dottnir út úr keppni. Loks fundum við leigubíl. Brosandi Íslendingar voru við það setjast upp í hann þegar minn vopnaði vinur bægði þeim í burtu og ætlaði að stela bílnum fyrir mig. Óhætt er að segja að landar mínir brostu ekki til mín og það gerði leigubílstjórinn ekki heldur og neitaði að keyra mig. Fékk að launum skömm í hattinn frá hermanninum sem rak hann burtu með allskyns orðaflaumi sem ég efast um að hafi verið lofræða. Eftir um tuttugu mínútna rölt sá ég að ég yrði fljótari að fanga alla pókimona heimsins en einn leigubíl og ég sagðist ætla að stökkva í lestina. Eins og sönnum herramanni sæmir fylgdi hann mér að lestarstöðinni og lét hleypa mér inn án miða. Ég sat svo sveitt á heimleið að velta því fyrir mér hvernig ég kæmist út úr lestarstöðinni þar sem maður notar miðann inn og út úr kerfinu. En...þetta reddaðist eins og allt.

Daginn eftir rölti ég með vinkonu minni um stórborgina. Við kíktum á íslenska básinn á Evrópusýningunni og fengum okkur gott að borða

utandyra - því það er alltaf hlýtt í París. Hún og fjölskylda hennar keyrðu mig út á flugvöll. Þegar röðin var næstum því komin að mér kom hermaður og rak alla út. Grunsamleg taska fannst í flugstöðinni og sprengjusveitin kölluð út. Í annað sinn þess helgi stóð ég fyrir utan flugvallarbyggingu. Landinn var nú misánægður með þetta uppátæki hersins og einn reifaði samsæriskenningar um að flugfélagið stæði að baki útiveru okkar. Örugglega sami gaurinn og var alltaf aðeins á undan í huh-klappinu.

Heim komumst við og með magnaðar sögur í farteskinu. Þessi þriggja landa sýn var síðan ríkulega bætt af ferðaskrifstofunni (svona ef einhver var að velta því fyrir sér).

Minningin um að hafa tekið þátt í EM ævintýri karlalandsliðsins í fótbolta er einstök. Næst...HM ;)

#EM #París #Frakkland

RECENT POSTS:
SEARCH BY TAGS:
No tags yet.